Þvagfærasýking/Blöðrubólga

Efnisyfirlit

Hvað er blöðrubólga?

Blöðrubólga er sýking í þvagblöðrunni en heitið er oft notað ef sýking eða erting í neðri hluta þvagfæra leiðir til þess að þvaglát verða tíð eða sár.

Hver er orsökin?

Ýmsar orsakir geta verið fyrir blöðrubólgu. Sýking af völdum þarmabaktería er langalgengasta orsök blöðrubólgu. Sérstaklega hjá konum, en þær hafa mun styttri þvagrás en karlmenn, og þvagrásarop þeirra liggur nálægt endaþarmsopinu. Venjulega er þvagið gerlalaust en það geta verið bakteríur í þvaginu án þess að einkenni komi fram.

Það geta verið fleiri orsakir fyrir því að bakteríur setjist að í blöðrunni. Hjá fólki með þvagteppu tæmist blaðran ekki að fullu við þvaglát, og það þvag sem stöðugt verður eftir í blöðrunni getur orðið gróðrarstía baktería. Aðrar aðstæður geta gert bakteríunum auðveldara að komast upp eftir þvagrásinni.

Rangar hreinlætisaðferðir við klósettferðir: Þetta á sérstaklega við hjá konum og stúlkum, en þær eru með stutta þvagrás sem er nærri endaþarmsopi. Heppilegast fyrir þær er að þurrka sig í áttina frá þvagrásaropinu og aftur að endaþarmsopinu til að forðast að bakteríur frá endaþarminum fari í þvagrásina.

Meðfæddir gallar í þvagfærum. Við tíðar þvagfærasýkingar, sérstaklega hjá strákum og ungum mönnum ber að rannsaka hvort að meðfæddur galli sé til staðar í þvagfærum, sem gerir það að verkum að þvagblaðran tæmist ekki að fullu við þvaglát.

Karlmenn með stækkaðan blöðruhálskirtil. Stækkaður blöðruhálskirtill virkar eins og um meðfæddan galla sé að ræða, þ.e. þvagblaðran tæmist ekki við þvaglát þannig að bakteríur þrífast vel í því þvagi sem eftir situr í blöðrunni.

Þvagleggir. Hjá öllum einstaklingum með þvaglegg eru bakteríur í þvagblöðrunni, en þeim fylgja yfirleitt ekki einkenni. Þegar skipt er um þvaglegginn geta komið smárifur á slímhúð, sem geta orðið gróðrarstía fyrir bakteríur og þar með valdið blöðrubólgu og jafnvel sýkingu í blóði.

Barnshafandi konur. Flestar barnshafandi konur fá bakteríur í þvag, en meðan það veldur ekki einkennum er það venjulega látið ómeðhöndlað.

Nýrnasteinar valda sérlega aukinni tíðni þvagfærasýkinga.

Aðrar orsakir

Hveitibrauðsdaga blöðrubólga. Konur sem stunda mikið kynlíf geta fengið einkenni sem svipar til blöðrubólgueinkenna.

Kynsjúkdómar. Lekandi og klamydía geta gefið svipuð einkenni og blöðrubólga. Ef ungir karlmenn sem stunda kynlíf fá einkenni blöðrubólgu ætti að ganga úr skugga um að ekki sé um kynsjúkdóm að ræða.

Sníkjudýr. Einstaklingar sem hafa verið í Norður-Afríku eða Austurlöndum nær eiga á hættu að fá sníkjudýr í þvagblöðruna, svokallaða blóðögðusótt. Einkennin eru svipuð og við blöðrubólgu en það eru engar bakteríur í þvaginu.

Tíðahvörf.Vegna skorts á kvenkyns hormónum verða ýmsar breytingar í líkamanum m.a. í slímhúð kynfæra og þvagfæra, þannig að þvagfærin ertast frekar og tilhneiging til blöðrubólgu eykst.

Snertiexem. Getur haft blöðrubólgulík einkenni í för með sér. Þetta sést einkum hjá konum sem nota svitalyktareyði eða önnur ertandi efni á kynfærin.

Hver eru einkenni blöðrubólgu?

Sviði eða sársauki við þvaglát.

Tíð þvaglátaþörf.

Þvagið getur verið gruggugt og/eða illa lyktandi.

Verkir geta verið fyrir ofan lífbein.

Börn undir 5 ára aldri fá oft önnur einkenni, þau geta orðið slöpp, pirruð, hafa minni matarlyst og kasta upp.

Hverjir eru í áhættuhóp?

Konur/stelpur sem þurrka sér ekki á réttan hátt við klósettferðir.

Barnshafandi konur.

Einstaklingar með meðfædda galla í þvagfærunum.

Karlmenn með stækkaðan blöðruhálskirtil.

Einstaklingar með þvaglegg.

Holl ráð

Það er mikilvægt að drekka mikið svo að blaðran skolist vel.

Mikilvægt er að blaðran tæmist alveg við þvaglát.

Mögulegt er að líkur á blöðrubólgu minnki ef klæðst er hlýjum fötum.

Þvaglát strax eftir samfarir skola burtu þeim bakteríum sem gætu hafa komist í þvagrásina.

Mikilvægt er að tæma blöðruna reglulega, gjarnan þriðju hverja klukkustund að minnsta kosti. Konur með „partýblöðru“ eru í meiri hættu á að fá blöðrubólgu.

Hvernig greinir læknirinn blöðrubólgu?

Mikilvægasta rannsóknin er smásjárskoðun á þvagi.

Þvagsýnið þarf að vera nýtt og það er mikilvægt að kona haldi skapabörmum frá við þvaglátin til að forðast mengun af bakteríum frá húð og leggöngum. Takið helst þvag úr miðri bunu. Ef um sýkingu er að ræða sjást bakter&iacute ;ur auk rauðra og hvítra blóðkorna.

Oftast notast læknrinn einnig við þvagstrimil og þvagræktun.

Við endurteknar og óútskýrðar þvagfærasýkingar þarf frekari rannsóknir til að leita að meðfæddum göllum.

Batahorfur

Yfirleitt hverfur vandamálið eftir meðhöndlun. Konur virðast þó eiga á hættu að sýkingin taki sig upp aftur. Fylgið ráðunum hér að ofan til að koma í veg fyrir það.

Hver er meðferðin ?

Meðferð felst oftast í sýklalyfjagjöf.

 

Höfundur greinar