Fótasveppur

Efnisyfirlit

Hvað er fótasveppur?

Fótasveppur er tilkominn vegna sýkingar af völdum örvera sem nefnast sveppir. Þeir sveppir sem algengast er að valdi fótsveppasýkingum eru þeir sem kallast dermatophytar en einnig
sjást sýkingar af völdum candidasveppsins. Sveppirnir lifa á dauðum húðfrumum, hári og nöglum. Læknisheitið yfir fótsveppi er tinea pedis, dermatophytosis, eða athlete’s foot.

Hver er orsökin?

Undir venjulegum kringumstæðum eru ýmsar örverur á húðinni, bæði bakteríur og sveppir og eru þær nauðsynlegar líkamanum. Sveppirnir lifa á dauðum húðfrumum, hári og nöglum og eru yfirleitt skaðlausir. Við ákveðnar aðstæður getur þeim hinsvegar fjölgað of mikið og myndast þá sýking. Þessar sýkingar geta ýmist verið af völdum einnar sveppategundar eða tengdar öðrum húðsjúkdómum. Fótsveppir eru mjög algengur sjúkdómur. Oftast fer fyrst að bera á honum á unglingsárum og er algengur hjá fullorðnum, en sjúkdómurinn er sjaldgæfari hjá börnum. Sveppirnir þrífast best við rakar og heitar aðstæður og eru því kjöraðstæður til vaxtar hjá einstaklingum sem ganga langtímum í lokuðum skóm og þeim sem þrífa og þurrka illa fæturnar þannig að húðin helst rök. Einnig gera smásár á húð og nöglum sveppunum auðveldara að dafna. Fótsveppir eru smitandi og smitast bæði við beina og óbeina snertingu t.d. með handklæðum, skóm, sokkum og af gólfum, einnig berst smit með vatni s.s. í heitum pottum og sundlaugum. Fótsveppir eru ýmist tímabundið vandamál eða geta komið aftur og aftur þegar meðhöndlun er hætt og orðið þannig langtímavandamál. Þetta er algengt vandamál og er talið að á hverjum tíma séu um 10% einstaklinga með fótsveppi.

Hver eru einkennin?

  • Sýkingin byrjar á milli tánna og getur svo færst undir ilina, en fer sjaldnast upp á ristina.
  • Kláði og jafnvel sviði verður á sýktu húðsvæði.
  • Útbrot.
  • Roði og bólga.
  • Blöðrumyndanir, sem vessi getur lekið úr og skorpa myndast yfir.
  • Húðin verður þurr og sprungur myndast.
  • Ef sveppur sest að í nöglum verða þær þykkar, hrufóttar og gulleitar að lit.

Áhættuhópar

  • Einstaklingar sem ganga mikið í lokuðum skóm, skóm úr gúmmí eða í íþróttaskóm.
  • Íþróttafólk (á ensku nefnist sjúkdómurinn Athlete´s foot).

Holl ráð til að koma í veg fyrir fótasveppi.

  • Þvoið fæturnar daglega með vatni og sápu og látið þá þorna vel áður en farið er í sokka eða skó. Gott er að þurrka fæturna með hárblásara því þannig næst betur að ná öllum raka úr ystu húðlögunum.
  • Notið bómullar- eða ullarsokka en forðist sokka úr gerfiefnum, þeir halda raka að fætinum. Skiptið um sokka a.m.k. tvisvar á dag og oftar ef þarf. Mikilvægt er að skipta um sokka í hvert sinn sem þið svitnið.
  • Forðist skó úr gerviefnum, gangið í leðurskóm, og best er að ganga í opnum skófatnaði. Gott er að skipta um skó eftir hvern dag þannig að þeir nái að þorna vel á milli og/eða taka innlegg úr skóm og láta lofta um þau og skóna.
  • Nota sundskó í sundferðum
  • Púðrið fæturnar og jafnvel skóna að innaverðu með talkúmi sem inniheldur sveppalyf og notið þá efni sem innihalda virku efnin clotrimazole eða miconazole.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Yfirleitt er hægt að byggja sjúkdómsgreininguna á einkennum. En hægt er að taka sýni úr útbrotunum til ræktunar.

Framtíðarhorfur

  • Oft er hægt að halda fótsveppum í skefjum með fyrirbyggjandi aðferðum og ef það dugar ekki má reyna svæðisbundna meðferð með sveppadrepandi lyfjum sem hægt er að kaupa í næstu lyfjaverslun.
  • Fótsveppir geta verið á mjög mismunandi stigum hvað varðar útbreiðslu og svörun við meðferð. Algengast er að þeir svari hefðbundinni meðferð vel, en koma gjarnan aftur þegar meðferð er hætt. Í öllum tilfellum er þó nauðsynlegt að stunda fyrirbyggjandi aðgerðir.
  • Helstu fylgikvillar eru bakteríusýkingar í húð, sem jafnvel getur dreift sér, og aukaverkanir lyfja þegar lyfjainntaka er notuð við meðferð.

Hver er meðferðin?

  • Staðbundin meðferð með sveppadrepandi lyfjum
  • Töflukúr. ef sýking er umfangsmikil eða erfið viðureignar
  • Lasermeðferð við naglsveppi

Höfundur greinar