Geðraskanir barna – Áhættuþættir og aðgerðir

Framfarir síðustu ára á sviði taugasálfræði og atferlisfræði hafa leitt í ljós mikilsverðar upplýsingar sem foreldrar, kennarar, barnalæknar og sálfræðingar geta nýtt sér til að hnitmiða aðstoð við börn í mismunandi vanda og fyrirbyggja geðraskanir. Rannsóknir á hvaða þættir það eru sem auka áhættu á geðrænum erfiðleikum barna eru mikilvægar af mismunandi ástæðum:

1. Vitneskja um hvaða þættir eru að baki ákveðinna erfiðleika auðveldar skilning á hvernig þessi erfiðleikar þróast.

2. Hægt er að sýna fram á áhættuhópa.

3. Skilningur á mismunandi áhrifum álagsþátta leiðbeinir um hvaða aðgerðum þarf að beita við mismunandi aðstæður til að fyrirbyggja geðræna erfiðleika.

4. Hægt er að nota rannsóknir til að ákvarða hvernig fjármagnið til málaflokksins skili sér í sem bestum árangri.

Margar nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að bæði líffræðilegir og félagslegir/ uppeldislegir þættir í æsku leiða til geðrænna erfiðleika barna án þess að um beint orsakasamband sé að ræða.

Hjá þeim börnum sem verða verst úti hafa yfirleitt, ef svo má segja, „safnast saman“

erfiðleikar af ýmsum toga heima, í skólanum eða í samfélaginu, t.d. veikindi, fjölskylduerfiðleikar, einelti og ýmiskonar önnur erfið reynsla. Margar rannsóknir sýna að sterkar líkur eru á að börn sem eiga í svona „fjölþættum erfiðleikum“ séu í mikilli áhættu að farnast illa í lífinu almennt. (Sjá P. Jörgensen: Risikobörn. Hvem er de? hvad gör vi? Kaupmannahöfn 1993).

Mest áberandi áhættuþættirnir eru: áföll á meðgöngu eða í fæðingu, arfgeng tilhneiging til geðrænna erfiðleika eða skapgerðarbrests, ytri þættir eins og fátækt, vanörvun, misnotkun og vanræksla, ófullnægjandi tengsl við nánustu ættingja, geðsjúkdómar foreldra, vímuefnaneysla og áföll af ýmsum toga.

Að fyrirbyggja geðræna erfiðleika

 

Mikilvægt er að vinna að því að fyrirbyggja geðræna erfiðleika og stuðla að geðrænu heilbrigði með því að hlynna að börnum frá unga aldri, því geðrænir erfiðleikar fullorðinna tengjast ótvírætt erfiðleikum sem þeir hafa átt við að stríða sem börn.

Þekkingin á fyrirbyggjandi aðgerðum hefur aukist mjög á undanförnum árum. Þannig vitum við í dag:

· að við höfum möguleika á að draga úr áhættuþáttum

· að við getum komið í veg fyrir geðræna erfiðleika (t.d. þunglyndi)

· að við getum kennt börnum félagsfærni; þ.e. innlifun, aðferðir til að leysa úr vanda og hafa stjórn á eigin hvötum

· að mikilvægt er að gripið sé fljótt og hnitmiðað inn í málin ef áföll verða eða börn lenda í kreppu á annan hátt

Grein þessi birtist 06.11.2002

 

 

Höfundur greinar