Meningókokkasjúkdómur

Sjúkdómurinn

Heilahimnubólga og blóðsýking af völdum meningókokka baktería, Neisseria meningitides, valda svonefndum meningókokkasjúkdómi. Slíkar sýkingar leiða oftast til dauða ef ekki er brugðist skjótt við með viðeigandi greiningu og meðferð. Sjúkdómurinn er algengastur í börnum en getur komið fyrir á öllum aldri. Útbreiðsla hans er oft tilviljanakennd en hann getur stundum orðið að faraldri. Því er mikilvægt að fylgst sé náið með sjúkdómnum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef fjöldi tilfella verður mikill.

Faraldsfræði og forvarnir

Sjúkdómurinn hefur í gegnum tíðina verið alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi. Á síðasta áratug 20. aldar var meningókokka-sjúkdómur sérlega algengur hér, með nýgengi um þrefalt hærra en á hinum Norðurlöndunum af óþekktum orsökum. Hæst fór nýgengið upp í 11 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á ári. Dánartíðni hérlendis hefur verið um 8,6% greindra tilfella en almennt er reiknað með um 10% dánartíðni við meningókokkasjúkdóm, þrátt fyrir meðferð. Meningókokkar skiptast í margar mismunandi gerðir, en þær sem helst valda sjúkdómi eru gerðir A, B, C, W, X og Y. Hjúpgerðirnar hafa mismunandi landfræðilega dreifingu. Hér á landi hafa einkum gerð B og C valdið sjúkdómi, en eftir að bólusetning gegn meningókokkum C hófst á Íslandi 2002 hefur sú hjúpgerð horfið af sjónarsviðinu hér á landi. Ýmis Evrópulönd hafa átt við faraldra vegna hjúpgerðar C á undanförnum 5 árum, en bóluefnið er ekki í útbreiddri notkun í flestum löndum Evrópu. Hjúpgerð B hefur verið algengust orsök meningókokkasjúkdóms víða á Vesturlöndum, þ.m.t. á Íslandi eftir 2002. Bóluefni við gerð B var lengi í þróun en nú eru komin 2 bóluefni á Evrópumarkað. Annað þeirra er notað hjá ungbörnum t.d. í Bretlandi og má einnig gefa unglingum, en hitt bóluefnið var þróað til notkunar hjá eldri einstaklingum en rannsóknir á notkun þess hjá ungbörnum eru væntanlegar. Sem stendur er tíðni meningókokka B mjög lág á Íslandi og bóluefni því ekki í bólusetningar-áætlun okkar. Þau eru ekki markaðssett á Íslandi sem stendur.

Sýkingar vegna hjúpgerða X og W hafa færst í aukana í Evrópu á undanförnum árum. Bóluefni við hjúpgerð W er fáanlegt þar sem ferðamannabólusetningar eru framkvæmdar en bóluefni við hjúpgerð X hefur ekki verið þróað. Vísbendingar eru um að annað bóluefnanna við hjúpgerð B kunni að hafa krossónæmisverkun gegn hjúpgerð X en frekari rannsókna er þörf.

Einkenni sjúkdómsins

Einkenni sjúkdómsins geta verið lúmsk og í upphafi líkst venjulegri kvefpest eða flensu. Ungbörn veikjast oft með ósértækum einkennum eins og minnkaðri meðvitund, óróleika, höfnun á fæðu, ógleði eða niðurgangi og hita.

Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki eða bungun á hausamótum ef þau eru enn opin og punktblæðingar, rauðleit útbrot sem lýsast ekki ef beitt er þrýstingi á þær. Síðkomin einkenni eru hátóna skrækir, meðvitundarleysi, höfuð fett aftur, lost og útbreiddir marblettir og greinilegar blæðingar í húð.

Hjá eldri börnum og fullorðnum eru ósértæk einkenni höfuðverkur, ógleði og bak- og liðverkir. Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki, ljósfælni, ruglástand og punktblæðingar eða marblettir.

Heilahimnubólgu eða blóðsýkingu skal alltaf hafa í huga hjá barni með óútskýrðan hita og áberandi veikindi. Hnakkastífleiki er ekki alltaf til staðar og er því mikilvægt að líta eftir húðblæðingum eða marblettum. Ef saman fer hiti og húðblæðingar þarf sjúklingur að komast á spítala án tafar.

Meðferð

Nauðsynlegt er að meðhöndla sjúklinga með meningókokkasjúkdóm sem fyrst á sjúkrahúsi með sýklalyfjum. Þrátt fyrir öflugar nútímalækningar er dánartala sjúkdómsins há eða tæp 9% hér á landi.

Þegar einstaklingur greinist með alvarlega meningókokkasýkingu geta einstaklingar í nánasta umhverfi þurft á fyrirbyggjandi lyfjagjöf að halda. Ef faraldur kemur upp vegna hjúpgerðar sem til er bólusetning við er mikilvægt að beita viðeigandi bólusetningum til að hefta útbreiðslu.

Tilkynningarskylda – skráningarskylda

Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af meningókokkasjúkdómi með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Greinin er fengin  af vef Landlæknis og birt með góðfúslegu leyfi

Uppfært 21.10.2019

Höfundur greinar