Keiluglæra

Keiluglæra (keratoconus) er sjúkdómur í hornhimnu augans. Hornhimnan er glæri kúpullinn framan á auganu  sem á að vera kúptur líkt á Perlan í Öskjuhlíðinni. Í keiluglæru hefur hornhimnan þynnst og misst lögun sína, sígur út á við og verður keilulaga. Ójafnan veldur sjónskerðingu með nærsýni og sjónskekkju. Keiluglæra kemur oftast fram á milli 10 og 25 ára aldurs og yfirleitt í báðum augum. Þessi sjúkdómur getur því valdið töluverðri sjónskerðingu og valdið því að einstaklingurinn getur ekki lengur unnið dagleg störf. Þróun sjúkdómsins er misjöfn og misjöfn milli auga og á fyrstu stigum sjúkdómsins er hægt að leiðrétta sjónskerðingu með gleraugum eða mjúkum linsum.

Einkenni

Óskýr sjón

Aukið næmi fyrir sterku ljósi og geislum sem getur haft áhrif á næturakstur og sjón þegar skipt er snöggt á milli myrkurs og ljóss

Augnþreyta

Skyndileg versnun á sjón

Orsakir

Ástæður keiluglæur eru ekki þekktar en bæði erfðir og umhverfisþættir eru taldir hafa áhrif.  Þannig eru auknar líkur á að börn einstaklinga með keiluglæru fái sjúkdóminn og tengsl eru einnig við ofnæmissjúkdóma eins og astma, grasofnæmi og excem.  Eins er tenging milli þess að nudda mikið augu í bernsku við keiluglæru en viðkvæmni í augum getur verið ein birtingarmynd ofnæmis.

Meðferð

Meðferð fer eftir þróun sjúkdóms og þó hann sé ekki að fullu læknanlegur eru ýmis meðferðarform sem geta haldið honum í skefjum eða bætt upp sjóntap.  Við vægari einkenni hjálpa gleraugu og linsur. Oft verður örmyndun á hornhimnunni og þá eru notaðar stífari linsur.  Ýmislegt er hægt að gera í nærumhverfi til að draga úr einkennum eins og hafa góða birtu á heimilinu, ekki skipta snöggt á milli ljósstiga, stilla lýsingu á skjátækjum og leturgerð, forðast augnþurk og augnnudd.

Við lengra genginn sjúkdóm eru ýmis önnur meðferðarform sem annars vegar miða að því að draga úr þörf á stöðugri linsunotkun,hægja á framgangi sjúkdómsins og bæta sjón.  Við langt genginn sjúkdóma þarf stundum að fara í hornhimnuskipti.

 

Bent er á fræðslusíðu Sjónlags um nánari lýsingu á meðferðarformum (sjonlag.is).

 

Birtist fyrst 2004 og uppfærð af Guðrúnu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðingi 19.maí 2020 með nýjum upplýsingum fengnum af vef Mayo clinic

(https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/keratoconus/symptoms-causes/syc-20351352).

 

 

 

 

 

Höfundur greinar