Kíghósti

Kikhósti, í daglegu tali oft nefndur kíghósti, er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullorðnum þekkist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta en í raun er algengara að sýkingin valdi einfaldlega kvefeinkennum hjá þessum aldurshópum. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum sem geta verið lífshættuleg hjá börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar.

Efnisyfirlit

Faraldsfræði

Útbreiðsla sjúkdómsins hefur farið vaxandi síðustu 20 árin og telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að á milli 20–40 milljónir tilfella komi upp árlega í heiminum og þá aðallega í þróunarlöndum. Á árunum í kringum 1930–1940 létust þúsundir manna af völdum kikhósta en með tilkomu bóluefnis gegn sjúkdómnum hefur dregið mjög úr dánartíðni af völdum hans. Þrátt fyrir góða þátttöku í bólusetningu gegn kikhósta þá hafa komið upp faraldrar í mörgum löndum hjá fullorðnum og eldri börnum. Ástæðan er sú að verndandi áhrif bólusetningarinnar þverra á nokkrum árum þó góð vernd sé til staðar hjá bólusettum ungum börnum.

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er yfirleitt um 2–3 vikur.

Einkenni sjúkdómsins

Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.
Ungum börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.

Greining

Sjúkdóminn má staðfesta með sýnatöku úr nefi/nefkoki og leit að erfðaefni bakteríunnar. Ræktun bakteríunnar úr nefi/nefkoki og mótefnamælingar í blóði eru mögulegar rannsóknaraðferðir sem er lítið beitt núorðið.

Meðferð

Meðferð fer eftir hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum, þá fyrst og fremst til að draga úr smiti bakteríunnar til annarra. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntöku og næringu. Lítil börn með kikhósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.

Forvarnir

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur hjá börnum yngri en 6 mánaða. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi hefur einungis verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna. Bólusetning barnshafandi kvenna er gerð í sumum nágrannalöndum okkar og hefur það dregið verulega úr sjúkdómi hjá börnum á fyrsta ári, sérstaklega börnum undir 3ja mánaða aldri sem hafa ekki fengið bólusetningu sjálf. Nú stendur til að taka slíkt verklag upp hér á landi, konum að kostnaðarlausu.

Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af kikhósta með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.

Tölfræðilegar upplýsingar um kikhósta 

Hér má sjá myndband af Youtube af barni með kikhósta:

http://www.youtube.com/watch?v=wuvn-vp5InE&feature=player_embedded 

Upplýsingar um kikhósta af vefsíðu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC):

http://www.ecdc.europa.eu/en/healthtopics/pertussis/Pages/index.aspx 

Greinin er fengin af vef Landlæknis og birtist með góðfúslegu leyfi þeirra

Uppfært 21.11.2019

Höfundur greinar