Kransæðasjúkdómur kvenna

Rannsóknir á Íslandi hafa verið mikið í sviðsljósinu undanfarið og tilefni líflegrar umræðu í þjóðfélaginu. Hér á eftir fer umfjöllun um nýlega birtar niðurstöður byggðar á Hóprannsókn Hjartaverndar og hugleiðingar um notagildi þeirra. Hér á landi byggjum við okkar læknisfræði eðlilega að mestu á erlendum rannsóknum og innlendar rannsóknir sýna okkur staðbundinn breytileika byggðan á landslagi áhættuþátta og upplagi þjóðarinnar. Þetta er eina leiðin til að meta árangur heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi, auk þess sem við getum á ákveðnum sviðum lagt hinum alþjóðlega vísindaheimi lið með rannsóknum, oftast vegna hérlendra aðstæðna sem erfitt er að líkja eftir annars staðar. Milli 1960 og 1970 var víða í nágrannalöndum okkar farið að rannsaka áhættuþætti kransæðasjúkdóms vegna gífurlegrar aukningar á tíðni hans, sérstaklega meðal karlmanna. Þarna tókum við þátt en ólíkt því sem almennt tíðkaðist á þeim tíma voru frá upphafi konur meðal þátttakenda í Hóprannsókn Hjartaverndar. Því eru til í dag í gagnabanka Hjartaverndar víðtækar upplýsingar um heilsu íslensku þjóðarinnar sem nýtast við stefnumótun í heilbrigðismálum hérlendis og skipulag þjónustu. Þær niðurstöður sem nú eru til umfjöllunar eru um tíðni og mismunandi form Kransæðastíflu hjá íslenskum konum.

Efnisyfirlit

Tíðni kransæðastíflu meðal kvenna

Fyrsta hugtakið um tíðni hér er nýgengi, en það segir til um ný tilfelli sjúkdóms hjá áður heilbrigðum einstaklingum. Tölur um nýgengi kransæðastíflu hjá konum í hóprannsókninni sýna okkur vel aldursdreifingu sjúkdómsins. Eftir sextugt þrefaldast nýgengið á hverjum áratug sem konur eldast. Þessi aldursdreifing gefur til kynna á hvaða aldri forvarnaraðgerðir hafa mest vægi. Nýgengi hjá konum yngri en 65 ára er svipað hjá okkur og áður hefur sést í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum en nokkru hærri gildi hjá elsta aldurshópnum og nær nýlegum dönskum tölum. Nýgengi kransæðastíflu hefur lækkað hérlendis sé litið til MONICA rannsóknarinnar, en sú þróun hefur sést ákveðnar hjá körlum en konum og einkum hjá yngri aldurshópunum. Hjá þeim aldurshópum sem mætt hafa í hóprannsóknina undanfarin ár hefur þessi þróun ekki verið merkjanleg.

Algengi

Er önnur breyta sem gefur til kynna tíðni sjúkdómsins og nú sem fjölda einstaklinga sem veikst hafa af kransæðastíflu sem hlutfall af fjölda í hóp/þýði. Stærð þessa hóps er háð nýgengi sjúkdómsins, hve margir lifa af hjartaáfallið og hverjar horfur þeirra eru eftir það. Algengi kransæðastíflu hefur aukist hér á landi á sl. áratugum og hjá konum hefur orðið þreföldun frá 1970-1990. Þar hafa lagst saman áhrif af bættum horfum sjúklinga sem veikjast til lengri og skemmri tíma. Margt getur truflað niðurstöður á löngum rannsóknartíma þrátt fyrir samræmd vinnubrögð við upplýsingaöflun, án þess að það geti skýrt aukningu af þessari stærðargráðu.

Bættar horfur, en lífsgæði?

Erlendar rannsóknir hafa gefið til kynna að heilsa kvenna með kransæðasjúkdóm sé verri en karla. Sú umræða hefur verið tvíþætt, annars vegar að dánartíðni þeirra sem veikjast sé hærri hjá konum en körlum. Hins vegar hvort konur fái sambærilega eftirmeðferð eftir að þær veikjast og er þar átt við aðgerðir og endurhæfingu, hvernig þeim gengur að ná upp fyrri starfsgetu og komast aftur út á vinnumarkaðinn. Kynjamunur á hlutfalli þeirra sem látast eftir kransæðastíflu er óverulegur hérlendis hjá fólki undir 65 ára aldri a.m.k. en ekki hafa þó verið skoðaðar allar hliðar á þessu máli. Tölur frá Tryggingastofnun ríkisins sýna að í hópi öryrkja með hjartasjúkdóm eru mun fleiri konur en karlar og er mikilvægt að fram fari greining á orsökum sem liggja að baki. Sérstaklega í ljósi erlendra rannsókna sem benda til að hækkandi hlutfall sjúklinga eftir kransæðastíflu fái síðar langvinna hjartabilun.

Hvetjum konur til þjálfunar

Erlendar rannsóknir á endurhæfingu kvenna með kransæðasjúkdóm hafa sýnt að konur hafa jafnmikið eða meira gagn af endurhæfingu en karlmenn. Líkamlega eru þær oft verr á sig komnar í upphafi þjálfunar en bæta hlutfallslega meira við sig en karlar. Konur hafa hinsvegar oft minni félagslegan stuðning og meiri skyldur á heimilum við fjölskyldur og maka, jafnvel að því marki að það hamli þátttöku þeirra í þjálfun. Að hvaða marki þetta á við hér er óljóst en heilbrigðisstarfsmenn og aðstandendur kvenna með kransæðasjúkdóm hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að hvetja konur til þátttöku í endurhæfingarmeðferð og áframhaldandi þjálfun. Einnig þarf að tryggja að ytri aðstæður svo sem flutningur til/frá þjálfunarstað og aðrar skyldur hamli ekki.

Notagildi fyrir heilbrigðisyfirvöld

Gjarnan má nýta niðurstöður sem þessar til að spá fyrir um þörf fyrir heilbrigðisþjónustu vegna einstaklinga sem veikjast af kransæðastíflu í framtíðinni og meta sérstakar forvarnaraðgerðir sem að gagni gætu komið. Meðalaldur þjóðarinnar hefur hækkað og þannig mun fyrirsjáanlega fjölga einstaklingum sem eru í áhættu að þróa með sér kransæðasjúkdóm. Forvarnaraðgerðir sem seinka sjúkdómsþróun eða lækka tíðni eru öllum í hag, jafnt einstaklingunum sem þjóðfélaginu og er enn hægt að gera betur á ýmsum sviðum.

Höfundur er læknir og stundar nám í faraldsfræði við Erasmus Háskólann í Rotterdam

Heimildir og ítarefni

Lilja S. Jónsdóttir, Nikulás Sigfússon, Helgi Sigvaldason, Guðmundur Þorgeirsson. Incidence and prevalence of recognised and unrecognised myocardial infarction in women. The Reykjavik Study. Eur Heart J 1998; 19: 1011-1018
Emil L. Sigurðsson. Coronary Heart Disease among Icelandic Men. An epidemiological cohort study. Gautaborg 1996. Doktorsritgerð frá Háskólanum í Gautaborg
Lloyd Chambless, Ulrich Keil, Anette Dobson, Markku Mahonen et al. Population versus Clinical View of Case Fatality from Acute Coronary Heart Disease. Results from þe WHO MONICA Project 1985-1990. Circulation 1997; 96: 3849-3859
Heart Disease in Women. Cardiology Clinics Feb. 1998, Vol.16, no.1
Konur og Karlar 1997. Hagstofa Íslands.

Heilsufar Kvenna. Rit nr. 1, 1998, Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðuneyti. Áður birt í HJARTAVERND, 35 ÁRG. 1. TBL. 1998

Birt með leyfi Hjartaverndar hjarta.is

Höfundur greinar