Lífhimnubólga

Lífhimnubólga (e. peritonitis) er bólga í lífhimnunni, það er þunna vefnum sem þekur vegg kviðarholsins að innan og umlykur þannig öll líffæri í kviðnum. Ef sýking kemst í himnuna er allt kviðarholið í hættu, þar með talin öll innri líffærin. Til eru tvær gerðir lífhimnubólgu.

Fyrsta stigs lífhimnubólga er þegar sýking dreifist frá blóði og eitlum í lífhimnuna. Þessi gerð er mjög sjaldgæf eða innan við 1% af öllum lífhimnubólgutilfellum. Flest tilfelli af fyrsta stigs lífhimnubólgu verða hjá fólki með lifrarsjúkdóma, til dæmis skorpulifur. Nýrnasjúklingar eru einnig í þessum hópi, ekki síst þeir sem þurfa á svokallaðri kviðskiljun að halda. Í báðum tilfellum safnast vökvi fyrir í kviðarholinu og myndast þá kjörskilyrði fyrir vöxt sýkla.

Hin megingerð lífhimnubólgu, og jafnframt sú sem er algengari, kallast annars stigs lífhimnubólga. Hún verður þegar bakteríur eða ensím komast í lífhimnuna úr meltingarveginum eða gallgöngunum. Báðar gerðir af lífhimnubólgu eru mjög alvarlegar og geta leitt til dauða ef viðeigandi meðferð fæst ekki.

Lífhimnubólga stafar oftast af sýkingu sem kemst í lífhimnuna við það að ristilveggurinn rofnar líkt og þegar botnlangi eða ristilpoki springur. Aðrar algengar orsakir eru rifa á magavegg, smáþörmum, gallblöðru eða botnlanga. Einnig getur lífhimnubólga orðið vegna sýkingar í kjölfar skurðaðgerðar.

Helstu einkenni lífhimnubólgu eru sár kviðverkur sem magnast við hreyfingu, flökurleiki og uppköst, hiti, þaninn eða aumur kviður og vökvi í kviðarholinu.

Ástæður þess að lífhimnubólga er hættuleg eru margvíslegar. Auk þeirrar bráðu hættu sem stafar að innri líffærunum má nefna hættu á blóðsýkingu (e. sepsis). Þegar sýking kemst í blóðið dreifist hún með því út um allan líkamann og getur leitt til víðtækrar líffærabilunar og jafnvel dauða. Víðtæk sýking getur leitt til þess að blóðið storknar og blóðtappi myndast, sem einnig getur leitt til dauða. Enn fremur getur trefjabandvefsmyndun í lífhimnu verið hættuleg, svo og slæm lungnabólga sem kemur stundum í kjölfar lífhimnubólgunnar.

Meðferðin við lífhimnubólgu fer eftir ýmsum þáttum, eins og aldri sjúklings, almennu heilsufarsástandi hans og sjúkrasögu. Almennt gildir að meðferðinni er beint gegn undirliggjandi ástandi. Í mörgum tilfellum þarf að gera bráða könnunarskurðaðgerð, til dæmis þegar botnlangabólga eða rifa við magasár eða ristilpoka koma til greina sem ástæður fyrir sýkingunni. Um leið og lífhimnubólga hefur verið greind er sjúklingurinn settur á sýklalyf. Stundum þarf einnig að þræða slöngu gegnum nefholið og ofan í maga til að soga upp vökva. Enn fremur getur þurft að gefa vökva í æð ef vökvatap hefur orðið. Að lokum má nefna að því miður svara sumar gerðir af lífhimnubólgu ekki lyfjameðferð.

Grein þessi er fengin af  Vísindavef HÍ og birtist með góðfúslegu leyfi

Höfundur greinar