Kynfæravörtur – upplýsingar

Spurning:

Ég er búinn að lesa nokkrar greinar á Doktor.is um HPV veiru og kynfæravörtur. Það sem mig langar að vita er: 1) Eftir að vörtur hafa verið fjarlægðar eru þær þá enn smitandi? 2) Er hægt að fá vörtur á kynfæri sem orsakast ekki af þessari veiru? 3) Er einhver önnur leið að fá vörtur en í gegnum kynlíf?

Svar:

Kynfæravörtur orsakast af veirum (HPV- Human Papilloma Virus). Til eru margir tugir afbrigða af HPV veirunni, sumar eru saklausar, aðrar illvígari. Vitað er að sumar tegundir hennar valda krabbameini í leghálsi kvenna. Vegna þess hve erfitt er að greina smit þessarar veiru ættu allar konur að láta taka sýni úr leghálsi reglulega á tveggja ára fresti. Sérstök ástæða er fyrir konur sem fengið hafa kynfæravörtur eða hafa haft samfarir við einstakling sem sýkst hefur, að fara reglulega í krabbameinsskoðun. Boðið er upp á slíkar skoðanir hjá heimilislæknum, hjá kvensjúkdómalæknum og hjá Krabbameinsleitarstöðinni í Skógarhlíð. Hægt er að greina forstig krabbameins á því stigi sem það er að fullu læknanlegt á meðan sjúkdómurinn er banvænn á seinni stigum.

1) Langur tími getur liðið frá því að veiran smitast þar til varta verður sýnileg. Mjög erfitt er því að tryggja að veiran sé horfin úr slímhúðinni þrátt fyrir að sýnilegar vörtur hafi verið fjarlægðar. Fyllstu varúðar skyldi því ávallt gæta við kynmök. 2) Vörtur á kynfærum eru af völdum veira í þessum flokki en þær eru mishættulegar eins og fyrr segir. 3) Veiran smitast með kynmökum, ekki er þekkt önnur smitleið.

Með von um að þetta svari spurningu þinni.
Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.