Aukaverkanir vegna Thyroxin Natríum?

Spurning:
Ég tek lyfið Thyroxín Natríum og er með óvirkan skjaldkirtil.
Mig langar að vita hverjar aðal aukaverkanir eru, ég þekki einhverjar, en það sem ég finn fyrir núna og hef gert síðustu daga er hraður hjartsláttur. Á kvöldin þegar ég er komin upp í rúm og er að fara að sofa, heyri ég í hjartslættinum og hann er hraður. Ég prófaði að telja slögin á mínútu í algerri afslöppun og þau voru 98. Mér finnst það mikið en er það eðlilegt? Gæti skammturinn sem er tvær töflur á dag, verið of mikill? Ég er að hugsa hvort þetta hafi eitthvað með það að gera hvort ég borða mikið eða lítið einhverja daga. Skammturinn virkar kannski of hár miðað við hvað ég hef borðað lítið í þessari viku. Ég hef misst 4 kg á stuttum tíma og er orðin 49,5 kg (er 160,8 cm há.) Getur hjarslátturinn verið út af of litlum mat eða er það skammturinn sem virkar hærri ef ég borða minna með honum? Ég reyndi að léttast eftir páskana, því þá bætti ég á mig. Ég er vön að gera þetta eftir hátíðarnar því þá er mikið af matarboðum. En svo fer ég í rétt horf aftur. Reyni þó að halda mér í kjörþyngd.

Svar:

Þessi texti er um aukaverkanir í Sérlyfjaskrá:

Aukaverkana er ekki að vænta í meðferð með levótýroxín natríum þegar lyfið er notað eins og læknir hefur ávísað því og ef fylgst er með klínískum og lífefnafræðilegum þáttum. Þegar farið er fram úr þolmörkum einstaklingsins fyrir levótýroxín natríum eða eftir ofskömmtun er mögulegt að eftirfarandi klínísk einkenni ofstarfsemi sjáist, sérstaklega ef skammturinn er aukinn of hratt í upphafi meðferðar: Hraðtaktur, aðrar takttruflanir, hjartaöng, höfuðverkur, vöðvaslappleiki og krampar, andlitsroði, hiti, uppköst, tíðatruflanir, falskt heilaæxli (pseudotumor cerebri), skjálfti, eirðarleysi, svefnleysi, ofsviti, þyngdartap, niðurgangur.

 

 

Mér sýnist því líklegt að þú gætir verið að fá of stóran skammt af lyfinu og ættir að ráðfæra þig sem fyrst við lækninn þinn um hvort minnka beri skammtinn. Ég legg áherslu á að þú gerir það eingöngu í samráði við lækninn því mikilvægt er að finna rétta skammtinn af lyfinu.Ef þú ert tæp 50 kíló og tæpir 161 cm á hæð er svokallaður BMI index 19 sem þýðir að þú mátt ekki vera mikið léttari til að hafa einkenni vannæringar. 
Finnbogi Rútur Hálfdanarsonlyfjafræðingur