Gerfiþvagsýrugigt.

Hver er orsökin fyrir gefiþvagsýrugigt,er það sama og þvagsýrugigt

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Þvagsýrugigt (e. gout) er gigtarsjúkdómur sem veldur bólgum og verkjum í liðum. Flestir finna að mestu fyrir henni í kringum liði í neðri útlimum líkamans og þá oftast við stórutá, roði og hiti í kringum liðinn getur komið fram ásamt því að svæðið verður viðkvæmt fyrir snertingu. Algengt er að þvagsýrugigt komi fram í köstum sem vara í nokkra daga, og að í upphafi sjúkdóms komi einkennin einungis fram í einum lið.

Þvagsýra skilst almennt út með þvagi, en þegar að of lítið af henni skilst út eða framleiðslan er of mikil getur hún hlaðist upp í líkamanum og þvagsýrukristallar fallið út í liði og valdið óþægindum og bólgum í kringum liði. Langvarandi og endurtekin köst geta skemmt liðina, og valdið langvarandi liðagigt og því ætti að leita til læknis ef einkenni eru til staðar.

Gervi þvagsýrugigt (e. pseudo gout) er einnig þekkt undir nafninu kalkkristalla liðagigt (e.  Calcium pyrophosphat deposition (CPPD)) og er gjarnan ruglað saman við þvagsýrugigt en ekki er um sama hlutinn að ræða. Orsök og einkenni þessa sjúkdóma er þó mjög svipuð, en báðir orsakast þeir af kristöllum sem falla á liði og valda verkjum, bólgum og roða við liðina. Algengast er að kalkkristalla liðagigt hafi áhrif á hné eða úlnlið, og í ýmsum tilfellum hefur hún áhrif á fleiri en einn lið í einu.

Erfitt getur verið fyrir fólk að greina á milli um hvorn sjúkdóminn er að ræða þar sem einkenni eru ansi lík, og myndi ég því eindregið ráðleggja að leitað sé til heimilislæknis sé einhver grunur um annan hvorn þeirra. Læknir getur þá aðstoðað við að greina á milli, greina orsakir og hver meðferð ætti að vera.

Með bestu kveðju
Erla Guðlaug, Hjúkrunarfræðingur