Geðdeyfð og fl.

Góðan dag.
Mig langar svo að spyrja hvernig ég lemstnútbúr miklu þunglyndi. Er á Esopram. Eg er framtakslaus, áhugalaus. Álltaf eins og ég sé veik. Nenni engu. Eg stunda golf skíði og sund og hef mig ekki inað fara i neitt af þessu. Alltaf haft mig til en er hætt því. Mig drwymir um að batna og þrái þess heitt. Er eitthvað sem eg get gert i samhliða lyfjunum?

Takk fyrir að svara mér💕

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Einkenni þunglyndis lýsa sér meðal annars með þeim einkennum sem þú lýsir hér að ofan. Önnur einkenni geta verið sjálfsgagnrýni og sektarkennd, aukinn pirringur og reiði, svartsýni, vonleysi, kvíði, erfiðleikar með að vera innan um aðra, einbeitingar- og minniserfiðleikar, breytingar á matarlyst, þyngd og svefni og hugsanir um dauðann.

Þegar ekkert er að gert getur þunglyndi versnað og varað lengur. Meðferðir eru almennt árangursríkar og geta veitt góðan bata. Þú talar um að vera að taka Esopram. Nú veit ég ekki hve lengi þú hefur verið á þeim eða hvaða styrk þú ert á. Stundum þarf að hækka styrkinn eða breyta yfir í annað lyf sem hentar betur.

Við alvarlegu þunglyndi hafa rannsóknir sýnt að lyfjameðferð sem er beitt samtímis samtalsmeðferð gefur mestan árangur. Ef þunglyndiseinkenni hafa ekki minnkað þrátt fyrir þetta samspil þá hefur hugræn atferlismeðferð (HAM) samtímis gefið góðan árangur. HAM er gagnleg aðferð til að ná og viðhalda bata í þunglyndi. Meðferðin snýst um að læra nýjar leiðir til að takast á við vanlíðan. Markmiðið er meðal annars að breyta neikvæðum, óhjálplegum hugsunum og hegðun og draga þannig úr vanlíðan.

Yfirleitt er fyrsta úrræði að leita til heilsugæslunnar, til heimilislæknis. Ef hann telur ástæðu til getur hann vísað þér til geðlæknis eða sálfræðings. Flestar heilsugæslur bjóða uppá niðurgreiðslu á ákveðið mörgum sálfræðitímum. Ef þú upplifir óþægilegar hugsanir sem þú ert hrædd við, sama hvað það er, er hægt að hringja nafnlaust í hjálparsíma 1717 eða fara inn á netspjall á 1717.is. Einnig er hægt að hafa samband við Píeta í síma 5522218.

Læt fylgja nokkrar gagnlegar síður:

https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/thema/item16402/Fyrir_sjuka_og_adstandendur

https://ham.reykjalundur.is/medferdarhandbok/formali/

https://pieta.is/

https://www.raudikrossinn.is/verkefni/innanlandsverkefni/heilbrigdi-og-velferd/hjalparsiminn-1717-og-netspjallid/

Gangi þér vel,

Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur