Svefn er ein af grunnstoðum heilsu og er nauðsynlegur fyrir líkama og sál. Að vanrækja svefn hefur slæm áhrif á heilsuna en ófullnægjandi svefn hefur neikvæð áhrif á ónæmiskerfið, hugræna getu, andlega líðan og til langs tíma eykur hættu á krónískum heilsufarsvanda. Vegna þessa er mjög mikilvægt að huga vel að svefninum.
Hér eru nokkur ráð sem hægt er að nýta sér til að sofa betur!
- Settu svefninn í forgang og hafðu góða reglu á svefninum. Reyndu að ákveða svefntíma byggt á því að fá 7-9 klukkustunda svefn á hverri nóttu. Gott er að fara að sofa og vakna á sama tíma daglega, líka um helgar.
- Búðu til afslappandi rútínu fyrir svefn. Afslappandi rútína gefur líkamanum merki um að kominn sé tími til þess að slaka á.
- Skjálaus tími fyrir svefn. Takmarkaðu útsetningu fyrir skjábirtu að minnsta kosti klukkustund fyrir svefn. Birtan frá skjánum getur dregið úr framleiðslu melatóníns og þar með seinkað syfju.
- Stundaðu reglubundna hreyfingu. Regluleg hreyfing yfir daginn eykur svefngæði en mikilvægt er að hafa í huga að mikil hreyfing seint á kvöldin getur seinkað syfjunni.
- Haltu svefnherberginu hreinu. Að hafa óhreint eða mikið dót í svefnherberginu getur ýtt undir streitu sem dregur þá úr þeim slakandi áhrifum sem svefnherbergið á að hafa.
- Passaðu upp á svefnumhverfið. Veldu góða dýnu, sængurföt og kodda til þess að svefnumhverfið sé þægilegt. Takmarkaðu hljóðáreiti, birtu og hafðu svalt hitastig í herberginu.
Höfundur greinar
Birna Ýr Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar