Bleikur október er helgaður baráttunni gegn brjóstakrabbameini í október ár hvert. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna á Íslandi.
Regluleg skimun og sjálfsskoðun brjósta auka líkur á að mein greinast snemma. Því fyrr sem brjóstakrabbamein greinist þeim mun betri eru lífshorfur.
Skimun
Konur á aldrinum 40-69 ára fá boð í brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti
Konur á aldrinum 70-74 ára fá boð í brjóstamyndatöku á þriggja ára fresti
Mikilvægt er að konur panti sér tíma í skimun þegar þær fá boðun. Skimun fer fram á eftirfarandi stofnunum:
- Brjóstamiðstöð Landspítala
- Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
- Sjúkrahúsinu á Akureyri
Helstu einkenni sem geta bent til brjóstakrabbameins eru:
- Hnútur eða fyrirferð í brjósti, oft harður eða þéttur og sjaldan aumur.
- Hnútur í handarkrika getur verið merki um meinvarp en hjá grannholda konum geta eðlilegir eitlar líkst hnútum.
- Inndregin húð eða geirvarta.
- Blóðug eða glær útferð frá geirvörtu
- Exemlíkar breytingar á geirvörtu eða sár sem ekki grær þarf að skoðast af lækni.
- Áferðarbreyting á húð, t.d. að hún verði ójöfn.
Hvað get ég gert ef einkenni koma fram?
Ráðlagt er að skoða brjóstin mánaðarlega, til dæmis 7-10 dögum eftir að blæðingar hófust. Ef einkenni eru til staðar er fyrsta skref að leita á heilsugæslu og fá skoðun læknis eða hjúkrunarfræðings. Þó einkenni séu til staðar þýðir það ekki að um krabbamein sé að ræða en mikilvægt er að hafa samband við heilsugæslu svo hægt sé að meta og skoða einkenni betur. Vertu vakandi fyrir breytingum á líkamanum og nýttu þér skimun þegar boð berst.
Myndband með leiðbeiningum um sjálfsskoðun brjósta – Brjóstakrabbamein, algengasta krabbamein íslenskra kvenna – Krabbameinsfélag Íslands
Höfundur greinar
Rakel Ösp Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar