Brisbólga

Brisbólga er ástand þar sem bólga myndast í briskirtli af einhverjum ástæðum. Briskirtillinn er langur, flatur kirtill sem er staðsettur á bakvið magann í efri hluta kviðarhols. Hlutverk hans er m.a. að framleiða meltingarensím sem hjálpa til við að brjóta niður fæðu og hormóna sem stýra sykurbúskap líkamans (insúlín og glúkagon).

Brisbólgu er skipt í tvo flokka eftir því hvort hún er bráð eða langvinn. Bráð brisbólga byrjar skyndilega og er til staðar í nokkra daga eða vikur, en langvinn brisbólga stendur yfir í lengri tíma, stundum í mörg ár. Væg tilfelli ganga yfir af sjálfu sér án meðferðar en í alvarlegum tilvikum getur brisbólga verið lífshættuleg.

Einkenni

Einkenni og teikn um brisbólgu eru mismunandi eftir því hvaða týpu um er að ræða.

Einkenni bráðrar brisbólgu geta verið:

  • Kviðverkir í efri hluta kviðar sem oft leiða aftur í bak
  • Kviðverkir sem versna eftir fæðuinntöku
  • Hiti
  • Hraður hjartsláttur
  • Ógleði
  • Uppköst
  • Eymsli í kvið þegar hann er snertur

Einkenni langvinnrar brisbólgu geta verið:

  • Kviðverkir í efri hluta kviðar
  • Þyngdartap án skýringa
  • Olíukenndar, illa lyktandi hægðir

Orsakir

Brisbólga verður til þegar meltingarensím sem briskirtillinn framleiðir verða virk áður en þau hafa skilað sér niður í meltingarveginn. Þá erta þau kirtilvefinn og bólga myndast. Endurteknar vægar brisbólgur geta leitt til langvinnrar brisbólgu. Örvefur getur myndast í kirtlinum sem leiðir til skertrar starfsemi. Vanvirkni í briskirtlinum getur leitt til meltingarvandamála og/eða sykursýki.

Atriði sem geta aukið líkur á brisbólgum eru:

  • Alkóhólismi
  • Gallsteinar
  • Aðgerðir á kviðarholi
  • Ákveðin lyf
  • Reykingar
  • Slímseigjusjúkdómur (Cystic fibrosis)
  • Fjölskyldusaga um brisbólgu
  • Hár styrkur kalsíum í blóði (blóðkalsíumhækkun, hypercalcemia), sem getur orsakast af ofvirkum kalkkirtlum (hyperparathyroidism)
  • Háar blóðfitur (hypertriglyceridemia)
  • Sýkingar
  • Áverkar á kviðarholi
  • Briskrabbamein

Stundum finnst þó engin ástæða fyrir brisbólgu.

Fylgikvillar

Brisbólga getur haft ýmsa fylgikvilla, til dæmis:

  • Sýndarblaðra (pseudocyst). Bráð brisbólga getur leitt til söfnunar á vökva og vefjaleifum á afmörkuðu svæði í briskirtlinum. Þetta kallast sýndarblaðra. Sýndarblöðrur geta rofnað og valdið innvortis blæðingum eða sýkingum.
  • Sýking. Bráð brisbólga gerir briskirtilinn viðkvæman fyrir bakteríum og upp geta komið alvarlegar sýkingar. Stundum þarf að framkvæma skurðaðgerð til að fjarlægja sýktan vef.
  • Sykursýki. Skaði á beta-frumum sem framleiða insúlín getur leitt til sykursýki.
  • Vannæring. Ef kirtilvefurinn verður fyrir of miklum skaða skerðist framleiðsla meltingarensíma og þar með nær líkaminn ekki að melta fæðu. Þetta getur leitt til vannæringar, niðurgangs og óútskýrðs þyngdartaps.
  • Briskrabbamein. Langvarandi bólga í briskirtli er áhættuþáttur fyrir briskrabbamein.

Greining

Hægt er að framkvæma ýmsar rannsóknir og inngrip til að greina brisbólgu.

  • Blóðprufur geta sýnt hækkuð brisensím (amylasi og lipasi) sem leka út í blóðið frá bólgnum briskirtli.
  • Hægðasýni geta leitt í ljós aukið magn fitu í hægðum vegna skorts á fituniðurbrotsensímum.
  • Tölvusneiðmynd (CT) getur sýnt gallsteina og er einnig notuð til að meta alvarleika brisbólgu.
  • Ómskoðun á brisi getur sýnt fram á gallsteina og/eða bólgu í briskirtli.
  • Vélindaómskoðun (Þar sem ómhaus er settur niður í vélinda) getur sýnt fram á bólgu eða fyrirstöðu í gallgöngum og brisgöngum.
  • Segulómun (MRI) getur sýnt vandamál í gallblöðru, briskirtli eða gall/brisgöngum.

Meðferð

Fyrsta meðferð á sjúkrahúsum felst oftast í eftirfarandi atriðum:

  • Fæðuinntöku er hætt í nokkra daga til þess að leyfa briskirtlinum að jafna sig. Þegar brisbólgan er á undanhaldi er byrjað á að drekka tæra drykki og rólega farið af stað með fæðuinntöku á ný. Ef brisbólgan lagast ekki þrátt fyrir föstu er stundum mælt með sondunæringu. Þá er lítið rör sett niður í maga og auðmeltanleg næringarefni sett þar niður.
  • Verkjameðferð. Brisbólga getur valdið miklum verkjum. Verkjalyf eru notuð til að halda þeim í skefjum.
  • Vökvagjöf í æð. Hætta er á þurrki í þessu ástandi og oftast er þörf á vökvagjöf í æð.

Eftir þetta er veitt sérhæfð meðferð við brisbólgu, en hún er mismunandi eftir því hver orsökin er.

  • Aðgerðir til að opna gallganga. Brisbólga er stundum orsökuð af fyrirstöðu eða þrengslum í gallgöngum. Stundum geta gallsteinar til dæmis stíflað gallgangana. Í þessum tilvikum þarf að opna gallganginn svo að brisbólgan gangi til baka. Sérstök aðgerð sem kallast ERCP (Endoscopic retrograde cholangiopancreatography) er stundum notuð til að fjarlægja gallsteina eða til að víkka upp þröngan gallgang. Þá er löng slanga, með örlítilli myndavél á endanum, sett niður um munninn alla leið niður í skeifugörn þar sem læknirinn getur opnað gallganginn.
  • Gallblöðrunám. Ef gallsteinar orsaka brisbólgu hjá fólki er oft mælt með því að gallblaðran sé fjarlægð í framhaldinu til þess að ástandið endurtaki sig ekki.
  • Brisaðgerð. Stundum er þörf á aðgerð á brisi til að soga burt vökva eða fjarlægja dauðan vef.
  • Áfengismeðferð. Ef alkóhólismi er ástæðan fyrir langvinnri brisbólgu er sterklega mælt með því að fólk hætti að drekka.

Eftirfarandi meðferð er mikilvæg hjá fólki með langvinna brisbólgu:

  • Meðhöndlun verkja. Langvinn brisbólga getur haft í för með sér langvinna kviðverki. Mikilvægt er að finna leiðir til að halda þeim í skefjum.
  • Inntaka meltingarensíma. Hægt er að taka inn belgi sem innihalda meltingarensím sem brisið sér um að framleiða hjá heilbrigðu fólki. Þetta hjálpar til við að melta fæðu þegar briskirtillinn starfar ekki nægilega vel.
  • Breytingar á mataræði. Það getur verið nauðsynlegt að minnka fituneyslu og skipta yfir í næringarríka, fituminni fæðu.

Höfundur greinar