Útlægur taugakvilli

Útlægur taugakvilli (peripheral neuropathy) kemur til vegna skemmda á taugum líkamans sem eru utan heila og mænu. Þetta getur valdið máttleysi, dofa og verkjum, oftast í höndum og fótum. Það getur einnig haft áhrif á önnur svæði líkamans.

Úttaugakerfið sendir upplýsingar frá heila og mænu (miðtaugakerfi) til líkama þíns. Úttaugar senda einnig skynjunarupplýsingar til miðtaugakerfisins.

Sérhver taug í úttaugakerfinu hefur ákveðinn tilgang og virkni, einkenni ráðast því af því hvaða taugar eru útsettar.  Taugar flokkast í:

  • Skynjunartaugar sem gefa skynupplýsingar, svo sem um hitastig, verk, titring eða snertiskyn frá húð.
  • Hreyfitaugar sem stjórna vöðvahreyfingum.
  • Ósjálfráða taugakerfið sem stjórna aðgerðum eins og blóðþrýstingi, hjartsláttartíðni, meltingu og þvagblöðru

Útlægur taugakvilli getur orsakast af sjúkdómum, meiðslum, sýkingum, efnaskiptavandamálum, erfðum og útsetningu fyrir eiturefnum. Ein algengasta orsökin er sykursýki.

Fólk með úttaugakvilla lýsir almennt sársauka sem stingandi, brennandi eða kitlandi. Í mörgum tilfellum er hægt að minnka einkenni, sérstaklega ef orsökin er vegna ástands sem hægt er að meðhöndla. Lyfjameðferð getur í sumum tilfellum hjálpað. Í fjölda tilvika er ekki hægt að greina orsök.

Úttaugakvilli getur haft áhrif á eina taug (mononeuropathy), tvær eða fleiri taugar á mismunandi svæðum (multiple mononeuropathy) eða margar taugar (polyneuropathy).

 

Einkenni

Einkenni úttaugabólgu geta verið:

  • Dofi, stingir eða náladofi í fótum eða höndum.
  • Stingur, þrýstingur eða brennandi sársauki
  • Mikið næmi fyrir snertingu
  • Verkir við athafnir sem ættu ekki að valda verkjum, svo sem verkir í fótum þegar sett er þyngd á þá eða þegar þeir eru undir teppi.
  • Skortur á samhæfingu og fallhætta.
  • Vöðvaslappleiki
  • Tilfinning eins og að vera með hanska eða í sokkum
  • Lömun ef hreyfitaugar verða fyrir áhrifum.

 

Ef ósjálfráðar taugar verða fyrir áhrifum geta einkenni falið í sér:

  • Hitaóþol
  • Of mikla svitamyndun eða að geta ekki svitnað
  • Vandamál í meltingarfærum eða þvagblöðru.
  • Breytingar á blóðþrýstingi, sem veldur sundli eða svima

 

Hvenær á að hitta lækni?

Leitaðu læknisaðstoðar tafarlaust ef þú tekur eftir óvenjulegri tilfinningu, máttleysi eða verkjum í höndum eða fótum. Snemmgreining og meðferð eru mikilvæg til að stjórna einkennum og koma í veg fyrir frekari taugaskemmdir.

 

Orsakir:

  • Sjálfsnæmissjúkdómar. Þar á meðal Sjögrens heilkenni, lupus, iktsýki, Guillain-Barre heilkenni, langvarandi bólgusjúkdómar og æðabólga.
  • Sykursýki. Meira en helmingur fólks með sykursýki þróa með sér einhverskonar taugakvilla.
  • Sýkingar. Veiru- eða bakteríusýkingar, þar á meðal Lyme sjúkdómur, ristill, Epstein-Barr veira, lifrarbólga B og C, holdsveiki, barnaveiki og HIV.
  • Erfðasjúkdómar. Charcot-Marie-Tooth sjúkdómur veldur arfgengri tegund taugakvilla.
  • Æxli. Illkynja og góðkynja æxli geta myndast á eða við taugar eða valdið þrýstingi á taugar.
  • Beinmergssjúkdómar. Óeðlilegt prótein í blóði, beinmergskrabbamein, eitilæxli og fleira.
  • Aðrir sjúkdómar. Þar má nefna nýrnasjúkdóma, lifrarsjúkdóma, bandvefssjúkdóma og vanvirkan skjaldkirtil.

 

Aðrar orsakir taugakvilla geta verið:

  • Alkóhólismi. Lélegt mataræði vegna áfengissýki getur leitt til vítamínskorts.
  • Útsetning fyrir eitrunum. Iðnaðar efni og þungmálmar eins og blý og kvikasilfur.
  • Lyfjameðferð. Ákveðin lyf, sérstaklega þau sem notuð eru til að meðhöndla krabbamein geta valdið útlægum taugakvilla.
  • Áverkar eða þrýstingur á taugar. Áverkar eftir slys, byltur eða íþróttameiðsli, geta skemmt taugar. Endurteknar hreyfingar geta orsakað taugaþrýsting.
  • Vítamínskortur. B-vítamín – þar á meðal B-1, B-6 og B-12. E-vítamín og níasín eru mikilvæg fyrir taugaheilsu.

 

Áhættuþættir

  • Sykursýki, sérstaklega ef blóðsykursstjórnun gengur illa.
  • Misnotkun áfengis
  • Vítamínskortur, aðallega B-vítamín
  • Sýkingar, svo sem Lyme sjúkdómur, ristill, Epstein-Barr veira, lifrarbólga B og C, og HIV
  • Sjálfsnæmissjúkdómar, svo sem iktsýki og rauðir úlfar, þar sem ónæmiskerfið ræðst á eigin vefi
  • Nýrna-, lifrar- eða skjaldkirtilssjúkdómar
  • Útsetning fyrir eiturefnum
  • Endurtekin hreyfing
  • Fjölskyldusaga um taugakvilla

 

Þessi grein er byggð á upplýsingum fengnum af eftirfarandi vefsíðum:

Peripheral Neuropathy Fact Sheet | National Institute of Neurological Disorders and Stroke (nih.gov)

Peripheral neuropathy – NHS (www.nhs.uk)

Peripheral neuropathy – Symptoms and causes – Mayo Clinic

Höfundur greinar