Heilsupistill Heilsuverndar – Jólahugvekja um streitu
Helga hafði áreiðanlega setið í rauða sófanum í stofunni vel á annan tíma. Hún hafði ákveðið að láta þreytuna líða úr sér. Bæði börnin og makinn voru farin að sofa og hún bara sat þarna og starði á vegginn. Henni leið eins og hún væri sprungin blaðra og var svo útkeyrð að hún gat ekki staðið upp úr sófanum og henni fannst fæturnir þungir sem blý. Það var stöðugur verkur í höfðinu sem byrjaði bak við augun og lá eins og strengur aftur í hnakka með viðkomu í báðum gagnaugum. Henni var ómótt og það fór um hana kuldahrollur eins og hún væri að fá flensu. Spjaldtölvan lá opin við hlið hennar og á skjánum sáust drög að fyrirlestri og hvatningu sem mannauðsstjórinn hafði beðið hana flytja daginn eftir fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins. Hún hafði varið stærstum hluta hluta vikunnar í að reyna að undirbúa sig og gera flottar myndir en var samt ekki tilbúin. Hún dró yfir sig þykkt ullarteppið til að reyna að halda á sér hita og reyndi að slaka á. Hún varð að klára að undirbúa fyrirlesturinn, þrífa fyrir jólin, hjálpa syninum að komast í gegnum prófin, fara með hundinn til dýralæknisins…
Henni fannst eins og ógnarlangur listinn yfir hvað þurfti að gerast í desember spólaði stanslaust í höfði hennar. Nú leið henni eins og hún væri við það að fá kvíðakast og öndunin varð grunn og hröð og hana svimaði og fannst herbergið hringsnúast. Hún lagðist út af í sófann í uppgjöf og dró teppið upp yfir höfuðið.
Sennilega hafði hún dottað eða hvað. Það var eins og hlý og notarleg birta streymdi inn í herbergið og amma Dóra, sem hafði kvatt fyrir mörgum árum, stóð allt í einu á miðju gólfi stofunnar. Amma Dóra brosti hlýlega til hennar og settist við borðið og fór að móta piparkökur úr dökkleitu deigi sem allt í einu var komið á borðið og Helga fann kunnuglega lyktina af bakstrinum. En svo var amma allt í einu farin að pússa silfrið með stórri blárri tusku og hún laut yfir verkið í rófylltri einbeitingu og hendur hennar lituðust svartar af fægileginum en áleitinn eimurinn af honum barst í vit Helgu. Amma Dóra leit upp úr verkinu, snéri sér að henni og sagði: Helga mín. Það kemur dagur eftir þennan dag. Þú þarft umfram allt að læra að hvíla þig og sjálf stilla kröfunum í hóf. Nægar eru samt, þær kröfur sem aðrir gera til þín, bæði í starfinu og heima fyrir.
Helga bærði á sér og dró teppið frá andlitinu. Henni leið svo mikið betur og hún gerði sér ekki vel grein fyrir hve lengi hún hafði sofið. Þetta er bara eins og í sögunni um anda Jólanna, hugsaði hún og brosti með sjálfri sér. Undir lok draumsins hafði henni fundist sem rödd ömmu dýpkaði og andlit hennar breyttist í svip læknisins sem hún hafði hitt um morguninn og boðskapurinn var sá sami: Þú þarft að hvílast meira og draga úr þeim kröfum sem þú sjálf gerir. Og það rifjaðist upp fyrir henni að hann hafði bætt við: Þetta snýst ekki um hvaða aðferðir þú hefur um skipulag, tímastjórnun eða vaktaáætlun. Þetta snýst um hugarfar. Hún greip tölvuna, opnaði hálfkláraðan fyrirlesturinn, fann fyrstu myndina og breytti nafni kynningarinnar úr “Drungi í desember” í “Er líða fer að jólum”.
Með ósk um gleðileg jól,
Höfundur greinar
Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og ráðgjafi í forvörnum hjá Streituskólanum-Heilsuvernd.
Allar færslur höfundar