Hvað er sökk og CRP í blóði?

Sökk

Sökk í blóði segir til um það hversu lengi rauð blóðkorn eru að sökkva í blóðvökva (plasma) í röri á tiltekinni tímaeiningu (mm/klst).

Ýmsir þættir hafa áhrif á sökk í blóði, svo sem samsetning blóðs og stærð rauðra blóðkorna. Sökk hækkar við ákveðna sjúkdóma og þá sérstaklega við ýmsa bólgusjúkdóma, svo sem iktsýki.

Mikilvægt er að skoða niðurstöður um sökk í blóði í tengslum við önnur einkenni, þar sem rannsóknin er mjög ósértæk en getur þó  gefið ákveðnar vísbendingar. Hækkun á sökki tekur að jafnaði langan tíma að koma í ljós, og tekur það sökk að sama skapi nokkurn tíma að lækka aftur niður í eðlileg gildi. Sökk er því ekki góð mæling í bráðum veikindum, en getur verið gagnlegt þegar fylgst er með virkni langvarandi bólguástands í líkamanum.

Eðlilegt sökk hjá körlum undir fimmtugu er talið vera 0-15mm/klst og 0-20mm/klst hjá konum, en mörkin hækka aðeins með aldri hjá báðum kynjum.

CRP

CRP mæling felur í sér mælingu á magn tiltekins bráðafasa próteins í blóði sem nefnist C-reactive Protein. Próteinið CRP er framleitt í lifur og er hækkun á því ágætur mælikvarði á bólguvirkni, þar sem framleiðsla CRP eykst þegar bólgusvar fer af stað í líkamanum.

Hækkað CRP gefur til kynna að bólgusvörun eigi sér stað, en getur hvorki sagt til um það hvort bólgan sé bráð eða langvinn né hvar í líkamanum hún á sér stað. CRP er næmara á svörun líkamans í bráðafasa heldur en sökk og nýtist CRP einnig yfirleitt betur sem mælikvarði á gagnsemi meðferðar þar sem það fellur hraðar en sökk eftir að meðferð hefst.

Sterk tengsl eru á milli hækkaðs CRP og bakteríusýkingar, en einnig getur CRP hækkað vegna veirusýkingar eða við bólgusjúkdóma. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl hækkunar á CRP í blóði og áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Hjá heilbrigðum eintaklingum teljast eðlileg gildi CRP í blóði yfirleitt vera undir 10 mg/L. Mörk þessi geta hækkað lítið eitt með aldri og einnig sést hækkun oft hjá óléttum konum. CRP getur mælst á bilinu 10-40 mg/L við veirusýkingu og við vægar bólgur. Þegar um er að ræða bakteríusýkingar eða virkar bólgur getur CRP hækkað í 40-200 mg/L, en ef um bruna eða alvarlega bakteríusýkingu er að ræða getur gildi CRP hækkað í yfir 200 mg/L.

Mælingar á hvoru tveggja CRP og sökki geta einungis gefið vísbendingar um hvað sé að, en aldrei gefið greiningu á því sem er undirliggjandi. Nauðsynlegt er því að skoða heildarmynd hvers einstaklings fyrir sig; með tilheyrandi sögu, skoðun auk fleiri rannsókna eftir því sem við á.

Höfundur greinar