Köld lungnabólga (mycoplasma)

Lungnabólga er sýking í neðri öndunarvegum sem getur komið fram í öðru eða báðum lungum. Yfirleitt fylgir hiti hefðbundinni bakteríulungnabólgu en kaldri lungnabólgu fylgir ekki eins hár hiti og þaðan fær hún nafn sitt.

Hver er orsökin?

Köld lungnabólga er sýking af völdum berfryminga (e. mycoplasma), sem smitast á milli fólks með hósta eða hnerra, en það veldur því að smáir dropar svífa um loftið sem innihalda bakteríuna og því geta aðrir andað þessu að sér.

 • Örveran berst þó aðeins á milli manna við náin samskipti en þeir sem verja stuttum tíma með þeim sem eru smitaðir eiga í minni hættu á að sýkjast.
 • Algengt er að hún berist á milli fjölskyldumeðlima, skólasystkina og á öðrum stöðum þar sem samskipti eru náin.
 • Það er erfitt að einangra smitaða einstaklinga því smitberar geta verið einkennalausir.

Hver eru einkennin?

Yfirleitt byrjar þetta með vægum einkennum, en það getur tekið 1-4 vikur fyrir einkenni að koma fram. Þau versna síðan gjarnan fyrstu dagana.

Einkennin eru m.a.:

 • höfuðverkur
 • vöðvaverkir
 • þreyta og slappleiki
 • særindi í hálsi
 • þurr hósti, sem getur varað í nokkrar vikur
 • yfirleitt lágur hiti, en hár hiti útilokar ekki, að um kalda lungnabólgu sé að ræða

Önnur einkenni geta verið:

 • mæði
 • brjóstverkur
 • blautur hósti

Hvernig greinist sjúkdómurinn?

 • Greiningin byggist á sjúkrasögu, einkennum og skoðun. Lungu skjólstæðingsins eru hlustuð, en lungnahlustun á skjólstæðingi með  kalda lungnabólgu getur verið eðlileg.
 • Læknirinn getur tekið blóðsýni og leitað að mótefnum gegn sýkingunni.
 • Röntgenmynd af lungum styður greininguna. Klínísk einkenni skjólstæðings eru stundum ekki í samræmi við útbreiðslu lungnabólgunnar á myndinni, þ.e. mikilli lungnabólgu fylgja ekki endilega mikil einkenni og öfugt.

Batahorfur

Það er tiltölulega auðvelt að lækna kalda lungnabólgu. Hún hefur sjaldnast fylgikvilla í för með sér hjá annars heilbrigðum einstaklingi.

Hver er meðferðin?

Við þessu eru gefin sýklalyf.

Greinin var uppfærð 26.6.2020 af Særúnu Erlu Baldursdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar