Sviti

Ég á svo í vandræðum með að svitna svo mikið ég þarf að skipta um nærföt svona tvísvar yfir daginn og passa mig í hverju ég klæðist ef ég fer út ég er orðin 67ara

Fyrirspurn:

Ég á svo í vandræðum með að svitna svo mikið ég þarf að skipta um nærföt svona tvísvar yfir daginn og passa mig í hverju ég klæðist ef ég fer út  ég er orðin 67ara

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Svitamyndun er viðbragð líkamans til að viðhalda jöfnum kjarnlíkamshita, en eðlilegt þykir að líkamshiti sveiflist eftir dægursveiflum líkamans. Almennt er líkamshiti hæstur á kvöldin, fellur síðan yfir nóttina og hækkar síðan jafnt og þétt yfir daginn og fram að næsta kvöldi.

Ýmsir hlutir geta síðan haft áhrif á líkamshitann, bæði innan líkamans og utanaðkomandi aðstæður, og í kjölfarið orðið til þess að líkaminn byrjar að mynda svita til þess að reyna að leiðrétta hitastigið.

Hér eru taldir upp ýmsir hlutir sem geta haft áhrif,

  • Umhverfishiti

Ef heitt er í umhverfinu reynir líkaminn að halda kjarnhitanum sem jöfnustum til þess að vernda mikilvæg líffæri og það gerir hann með því að auka svitamyndun og kæla þannig yfirborð húðarinnar.

  • Lyf
    Ýmis lyf geta verið valdið aukinni svitamyndun. T.d. þunglyndislyf, geðlyf, verkja og bólgueyðand lyf ásamt fleiri gerðum.
  • Sýkingar í líkamanum
    Sótthiti er varnarviðbragð líkamans við sýkingum, en þannig gerir hann umhverfi innrásarörveranna óvinveitt. Þegar að líkamshitinn hækkar svona hratt getur viðkomandi fundið mikinn kuldahroll og kófsvitnað, en það gerist þar sem líkaminn er að halda í hitann og lágmarka hitatap með því að draga úr blóðflæði til húðarinnar.
  • Breytingaskeið kvenna
    Svitakóf í tengslum við breytingarskeið kvenna geta gert vart við sig töluvert áður en breytingar verða á tíðarhring kvenna, algengt er að konur byrji að finna fyrir þessu í kringum fimmtugsaldurinn en það er þó alveg einstaklingsbundið.
  • Kvíði og álag
    Einstaklingar sem eru undir miklu álagi, eða finna fyrir miklum kvíða verða oft varir við aukna svitamyndun.
  • Ýmsir sjúkdómar
    Til eru ýmsir sjúkdómar sem ýta undir aukna svitamyndun

Þessi listi er á engan hátt tæmandi yfir þá hluti sem valdið geta aukinni svitamyndun, en mataræði, koffínneysla, það að borða stuttu fyrir svefn og ýmislegt annað getur haft áhrif á svitamyndun.

Það er því erfitt að segja til um hvað veldur þessari miklu svitamyndun hjá þér, en það virðist vera að þetta hafi mikil áhrif á daglegt líf hjá þér og myndi ég því eindregið ráðleggja þér að byrja á því að hitta þinn heimilislækni. Hann ætti að geta metið stöðuna betur út frá þínum aðstæðum og þinni sögu, og vonandi aðstoðað þig við að finna farsæla lausn á þessu vandamáli í framhaldinu.

Gangi þér sem allra best

Kær kveðja
Erla Guðlaug, Hjúkrunarfræðingur