Marið táberg?

Um daginn var ég að teygja kálfa (ógætilega) með því að leggja tábergið upp að dyrakarmi (innanverðan) og þrýsta fram en var illu heilli í inniskó með þunnum og linum leðursóla og einnig var fyrirstaðan ójöfn undir táberginu þannig að undirstaðan var ekki slétt. Átakið kom því ójafnt á tábergið og það teygðist kannski líka eitthvað á því vegna lina skósólans. Ég hélt í 1 mín. þrátt fyrir að finna dálítinn sársauka því sólinn varði tábergið lítið eða illa. Nokkru eftir þetta fór ég að finna fyrir eymslum eða sársauka þegar ég steig í fótinn og tók skref en kveikti samt ekki á perunni alveg strax því að ég fann engan sársauka strax á eftir að ég sleppti teygjunni. Ég hef reynt að hlífa þessu síðan, tók það rólega í tvo daga (helgi) og svo verið haltrandi til að gefa þessu tækifæri til að lagast. Þetta hefur eitthvað skánað nú eftir nokkra daga en ég finn að þetta er samt ekki orðið gott og ég þori varla að láta reyna á þetta að einhverju marki af ótta við að gera illt verra. En ég var að lesa á netinu að þarna niðri væri m.a.. um einhvers konar vef að ræða og að ekki væri óalgengt að hann þynntist og veiktist með aldrinum osfrv. Nú langar mig því að spyrja hvaða von ég get haft um að þetta grói og lagist af sjálfu sér hjá mér, og hvað það gæti þá tekið langan tíma? Ég er 57 ára gamall og geng mikið og vinn mikið á fótunum og það gæti því komið sér ansi illa fyrir mig ef þetta er einhver varanleg skemmd sem ég hef valdið með þessum klaufaskap.
Bestu þakkir

Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina

Miðað við lýsinguna eru líkur á því að þú hafir ofgert táberginu og sért með væga tognun. Fylgstu með því hvort þú sért skánandi eða versnandi. Ef þetta er tognun eða mar ráðlegg ég þér að forðast átak á fótinn, hvíla hann í hálegu eins og þú getur og taka bólgueyðandi verkjalyf fyrstu dagana. Ef þú ert aumur getur verið hjálplegt að nota teygjusokk á daginn (passa þarf þó að hann þrengi ekki of mikið að né stöðvi blóðflæði).

Ef það eru liðnir nokkrir dagar og þú ert enn að finna fyrir sársauka og erfiðleikum við að stíga í, ráðlegg ég þér að fara til heimilislæknis til að skoða fótinn.

Gangi þér vel,

Rebekka Ásmundsdóttir,

hjúkrunarfræðingur