Vogris

Hver er orsökin?

Vogris er bakteríusýking í stífluðum fitukirlum eða hársekkjum á augnloki. Hún er yfirleitt hættulaus og nokkuð algeng. Oftast gengur sýkingin yfir á 5-8 dögum.

Hver eru einkennin?

Einkenni geta komið fram sem eymsli, bólga og roði á augnloki við augnhárin. Gulleitur eða hvítur graftarnabbi myndast á roðasvæðinu sem tæmist út eftir nokkra daga. Eymslin hverfa þegar gröfturinn losnar og augnlokið jafnar sig á skömmum tíma.

Stöku sinnum fylgir aukið tárarennsli, gröftur í auga (stírur), ljósfælni og tilfinning um að aðskotahlutur sé í auganu.

Hver er meðferðin?

Þegar augnlokið verður aumt og rautt er hægt að leggja við það heita bakstra í nokkrar mínútur í senn, þrisvar á dag. Því næst er gott að þvo augnlokið vandlega með bómullarhnoðra vættum í volgu soðnu vatni þar til allur gröftur er horfinn. Einnig er hægt að fá í apótekum sótthreinsiklúta fyrir augu sem hægt er að nota til að strjúka yfir svæðið.

Aldrei ætti að kreista sýkta svæðið þar sem það getur dreift sýkingunni. Handþvottur er mikilvægur og mikilvægt að þvo augað reglulega með volgu soðnu vatni og passa vel að smit berist ekki á milli augna.

Stundum myndast vogrís endurtekið með stuttu millibili eða verða fleiri en einn í einu. Þá hefur sýkingin breiðst út og er þá gæti þurft að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum.

Sýkingin getur smitast á milli manna og því er miklvægt að huga vel að handþvotti og ætti að forðast að deila sængur- og koddaverum, þvottapokum og handklæðum með öðrum.

Til að koma í veg fyrir smit ætti aldrei ætti að nota snyrtivörur frá öðrum sem notaðar eru á augun eins og til dæmis maskara, augblýanta og augnhárabrettara.

Forðast ætti að nota augnlinsur og snyrtivörur eða augnmálningu á meðan sýkingin gengur yfir.

Leitið læknis ef:

  • ef sýkingin verður þrálát
  • ef sjóntruflanir gera vart við sig
  • allt augnlokið er bólgið
  • húðin umhverfis augað fer að roðna
  • aðrar sýkingar s.s. hvarmabólga eru einnig til staðar.

 

Höfundur greinar