Þægindaramminn

Efnisyfirlit

Að brjótast út úr þægindasvæðinu

Flest vitum við hversu mikilvæg rútína er fyrir heilbrigði og vellíðan. Rútína veitir öryggi, stöðugleika og jafnvægi en með tímanum getur einstaklingur hins vegar átt til að festast í sömu hjólförunum ef ekki er brugðið út af henni af og til. Til að ná markmiðum og draumum getur verið hressandi og skemmtileg áskorun að bregða sér út af þægindasvæðinu.

 

Picture1

Þægindasvæðið

Þægindasvæðið (öðru nafni þægindaramminn) er heiti yfir það ástand þar sem manneskju líður vel og er í hlutlausu og þægilegu ástandi. Í honum eru engar áhættur teknar. Einstaklingi líður vel og þekkir aðstæður. Með tímanum festist hann í daglegri rútínu þar sem hugsanir og framkvæmdir eru á sjálfsstýringu. Innan þægindasvæðis er erfitt að ná árangri og betrumbæta sjálfan sig.

Hvert og eitt okkar hefur þá tilhneigingu að festast í rútínu sem er þægileg og auðveld. Við slökum á og með tímanum þróum við með okkur venjur og sættum okkur oft við mun minna en við getum í raun og veru áorkað.

Hættusvæðið

Það þarf hugrekki til að stíga út fyrir þægindasvæðið yfir á hættusvæðið. Ótti og óvissa einkennir þetta svæði en það er ekki eitthvað til að hræðast og er það oft nauðsynlegt skref til að komast yfir á næsta þrep. Hættusvæðið er ekki hættulegt þó það geti valdið óþægindum, ótta og eða efasemdum um sjálfan sig. Gott er að muna að það er tímabundið og er oftast skref í átt að vexti og þroska.

Hér er gott að leitast við jafnvægi og raunsæi. Ef ekki er tekið af skarið gerist ekki neitt og sömuleiðis ef farið er of geyst af stað getur það valdið bugun og orðið yfirþyrmandi.

Lærdómssvæðið

Á lærdómssvæðinu öðlast viðkomandi nýja hæfni og verður betur í stakk búinn undir áskoranir. Eftir lærdómstímabilið verður til nýr þægindarammi sem eykur hæfni og getu til að ná enn hærri hæðum og stærri markmiðum. Hér eru teknar fleiri áhættur og reynt að prófa sig áfram. Einstaklingur getur þurft að finna mismunandi leiðir til að ná markmiðum sínum og lærir að hugsa í lausnum og gefast ekki upp.

Vaxtarsvæðið

Á þessu svæði á sér stað vöxtur og þroski. Hér hefur manneskja öðlast aukna þekkingu á sjálfri sér. Þar þekkir hún styrkleika sína og veikleika betur. Hér má einnig skoða hvar áhugi og draumar liggja og setja sér ný markmið út frá þeim.

Hér sækist einstaklingur eftir áskorunum, setur sér stærri markmið, sækist eftir og gagnrýni, endurgjöf og leiðsögn frá leiðbeinendum, þjálfurum eða jafningum. Með þessu uppgvötar einstaklingur oft nýja eða leynda hæfileika ásamt nýrri færni sem gerir honum kleift að takast á við ný og skemmtilegri verkefni eða uppgvöta nýjan vettvang í lífi eða starfi.

 

Picture2

 

Gott að hafa í huga

Ferlið að færa sig úr þægindasvæði yfir á vaxtarsvæði er ekki alltaf línulegt. Toppar og lægðir geta átt sér stað og er það fullkomlega eðlilegur partur af því að ná árangri á öllum sviðum. Þolinmæði og staðfesta eru kostir sem gott er að búa yfir.

Þessi fjögur svæði geta verið mjög breytileg milli einstaklinga og milli tímabila í lífinu. Hver og einn þarf að þekkja sín mörk og hafa tilfinningu fyrir því hversu langt er farið í senn.

Það er ekki alltaf slæmt að vera á þægindasvæðinu og stundum er þörf á að hörfa aftur í það tímabundið til að byggja upp hugrekki og styrk til að takast á við næstu verkefni utan þess. Það getur verið freistandi að vera í því til lengri tíma, þar sem manni líður vel, finnur fyrir öryggi og er við stjórnina. Það er slétt sigling en bestu sjómennirnir þjálfast ekki í sléttum sjó.

“Allur þroski og vöxtur á sér stað utan þægindarammans” – Tony Robbins

 

Heimildir

Brian Tracy. (2012). The Power Of Self-Confidence: Become Unstoppable, Irresistible, and Unafraid in Every Area of Your Life. Gildan Media Corporation.

Page, Oliver. 2020, 4. nóvember. How to leave your comfort zone and enter your ‘growth’ zone. Sótt af: https://positivepsychology.com/comfort-zone/

Henry, Aland og Fishbein, Rebecca. 2019, 26. september. The science of breaking out of your comfort zone (and why you should). Sótt af: https://lifehacker.com/the-science-of-breaking-out-of-your-comfort-zone-and-w-656426705

Höfundur greinar