Sjálfstraust

Hvað er sjálfstraust?

Sjálfstraust tengist viðhorfi einstaklings til eigin færni og getu. Gott sjálfstraust þýðir að hann virðir og treystir sjálfum sér og hefur ákveðna stjórn á lífi sínu. Hann þekkir styrkleika sína ásamt veikleika og hefur jákvætt viðhorf til sjálfs sín. Hann er með raunhæfar væntingar um sjálfan sig og þolir gagngrýni annarra.

Lágt sjálfstraust tengist oft lágu sjálfsmati, mikilli sjálfsgagnrýni og efasemdum. Fólk getur átt í  erfiðleikum með að treysta sjálfu sér og öðrum. Því gæti liðið eins og því finnist engin elska sig og er viðkvæmt fyrir gagnrýni annarra.

Sjálfstraust getur tengst aðstæðum, til dæmis getur einstaklingur verið sjálfsöruggur þegar kemur að námi eða íþróttum en skortir sjálfstraust á öðrum sviðum, eins og til dæmis í samböndum eða samskiptum.

Manneskja með heilbrigt sjálfstraust getur náð mun lengra í persónulegu lífi og á vinnumarkaði heldur en manneskja með lítið sjálfstraust. Þess vegna skiptir miklu máli að byggja upp sjálfstraust og sjá má leiðir hér fyrir neðan. Gott er að hafa í huga að sjálfstraust eða skortur á því getur verið breytilegt á milli daga. Það er svo margt í nær- og fjærumhverfi sem hefur áhrif á sjálfstraust fólks. Stundum líður manneskju vel og er tilbúin að sigra heiminn en aðra daga líður henni eins og hún sé ekki alveg með hlutina á hreinu eða er ekki nógu ánægð eða örugg með sig. Svefn, mataræði, hreyfing, frammistaða og samskipti við aðra, hefur allt áhrif á það hvernig fólki líður dag frá degi.

Mikið eða lítið sjálfstraust tengist sjaldan raunverulegum hæfileikum einstaklings, heldur frekar sjálfsmati hans. Sjálfsmat hvers og eins fer eftir því hvernig viðkomandi hugsar um og metur sjálfan sig. Einstaklingur með heilbrigt sjálfsmat hefur almennt jákvætt viðhorf til sjálfs síns og finnst hann jafn mikils virði og aðrir og lítur á sig sem jafningja annarra.

Sjálfsálit

Sjálfsálit snýst um að hafa gott álit á sjálfum sér. Það stjórnast af þeirri trú að einstaklingur eigi skilið ást og virðingu og geti metið eigin hugsanir, tilfinningar, skoðanir, áhuga og markmið. Sjálfsálit hefur líka með að gera hvernig hann leyfir öðrum að koma fram við sig og geti þróað og metið heilbrigð og traust sambönd.

Sjálfsálit og sjálfstraust er ekki það sama. Sjálfstraust tengist getu hvers og eins á ýmsum sviðum og vissu fyrir því að geta leyst verkefni lífsins og tekist á við áskoranir. Hægt er að vera sjálfsöruggur á ákveðnum sviðum sem viðkomandi hefur góða stjórn á og er hæfur en skortir sjálfsálit. Það að ná árangri á ýmsum sviðum bætir ekki endilega sjálfsálit.

Að byggja upp sjálfstraust

Gott er að hafa í huga þegar verið er að byggja sjálfstraust að það skiptir miklu máli að standa við loforðin sín gagnvart sjálfum sér. Ef eintsklingur ákveður til dæmis að vakna klukkutíma fyrr til að hugleiða eða fara út að hlaupa er mikilvægt að standa við það. Þó svo að það gefist lítill tími í það einn daginn, getur hann oftast tekið 15 mínútur af deginum til að sinna því. Með því er hann að standa við loforðin sín og þannig eykst sjálfstraust og sjálfsánægja. Þarna er mikilvægt að vera raunsær í markmiðasetningu og setja sér viðráðanleg og raunsæ markmið sem einstaklingur veit að hann getur staðið við (sjá grein um markmiðssetningu hér https://doktor.frettabladid.is/grein/markmidssetning ).

Súperman- staðan

Flest okkar vitum hversu mikilvæg rétt líkamsstaða er þegar kemur að heilsunni og að röng líkamsbeiting getur komið af stað vöðvabólgum, óþægindum og verkjum í líkamanum. Rannsóknir sýna fram á að ákveðnar líkamsstöður geta haft veruleg áhrif á tilfinningalegt ástand okkar og jafnvel sjálfstraust.

Þegar einstaklingur er dapur eða hræddur getur líkamsstaða hans breyst í þeim skilningi að bakið á til að bogna örlítið, axlirnar detta niður sem og höfuðið lútir niður. Oft getur verið auðvelt að skynja og sjá þegar einhverjum líður illa og það sama á við þegar einhverjum líður vel. Líkamsbeitingin snarbreytist þegar viðkomandi líður vel og er sjálfsöruggur, þá er hann uppréttur, það réttist úr öxlunum og höfuð er upprétt.

Ýmsar rannsóknir sýna meira að segja fram á að tilfinningalegt ástand okkar og líkamsstaða getur virkað hvort á annað. Sem dæmi, með því að beita líkamanum vísvitandi vitlaust, til dæmis með því að hanga í stól, lúta höfði og vera með bogið bak, getur vinnuframmistaða okkar orðið verri og afköstin minni.

Súperman eða ofurmanna, -kvenna staðan svokallaða er sú staða þegar viðkomandi stendur beinn með axlirnar vel aftur hendur á mjöðmum og horfir fram á við. Þessi upprétta staða getur haft jákvæð áhrif á sjálfstraust og frammistöðu, sem og minnkað kvíða og streitu. Með því að standa í þessari líkamsstöðu í tvær mínútur áður en farið er inn í ógnvekjandi aðstæður, svo sem fyrir atvinnuviðtal, mikilvægan fund, íþróttakeppni eða að halda fyrirlestur, er hægt að fá fram þessi jákvæðu áhrif.

Leiðir til að auka sjálfstraust:

  • Þekktu og einblíndu á eigin styrkleika
  • Klappaðu þér á bakið fyrir framfarir og árangur. Vertu þín eigin klappstýra.
  • Ekki dvelja á mistökum þínum
  • Komdu vel fram við sjáfan þig. Ekki gagngrýna þig um leið og eitthvað fer úrskeiðis. Farðu yfir mistökin og reyndu að draga lærdóm af þeim
  • Settu raunhæf og skýr markmið. Ekki búast við fullkomnun
  • Hægðu á þér þegar þér finnst aðstæður vera yfirþyrmandi og gefðu þér svigrúm
  • Hreyfðu þig reglulega. Finndu þér líkamlega hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Hreyfing minnkar líkur á þunglyndi, streitu, hjarta-og æðasjúkdómum og bætir svefn og andlega vellíðan
  • Taktu eftir því hvernig þú talar til sjálfs þíns (neikvæðar hugsanir). Myndir þú tala svona við aðra?
  • Skoðaðu þín mörk. Lærðu að segja “nei” við óraunhæfum beiðnum
  • Mundu að fortíðin jafngildir ekki framtíðinni. þú ert við stýrið og ekki láta neikvæðar tilfinningar ráða förinni

Raising low self-esteem. E.d. NHS. Sótt af: https://www.nhs.uk/mental-health/self-help/tips-and-support/raise-low-self-esteem/

Tibi Puiu. 2023. 9. maí. Does the “superhero” pose actually make people feel more confident? ZMA Science. Sótt af: https://www.zmescience.com/feature-post/health/mind-brain/does-the-superhero-pose-actually-make-people-feel-more-confident/

Cuddy, Amy J.C., Caroline A. Wilmuth, and Dana R. Carney. „The Benefit of Power Posing Before a High-Stakes Social Evaluation.“ Harvard Business School Working Paper, No. 13-027, September 2012. Sótt af: https://dash.harvard.edu/bitstream/handle/1/9547823/13-027.pdf

What is self-confidence? E.d. University of south Florida. Sótt af: ​​https://www.usf.edu/student-affairs/counseling-center/top-concerns/what-is-self-confidence.aspx

Hvað er heilbrigt sjálfsmat? 2017, 26. janúar. Heilsuvera. Sótt af: https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/lidan/sjalfsmynd/hvad-er-heilbrigt-sjalfsmat/

Brian Tracy. (2012). The Power Of Self-Confidence: Become Unstoppable, Irresistible, and Unafraid in Every Area of Your Life. Gildan Media Corporation.

Cherry, Kendra. 2023, 13.febrúar. 11 Signs of low self-esteem. Sótt af: https://www.verywellmind.com/signs-of-low-self-esteem-5185978

Self-esteem and mental health. 2021, okróber. Health direct. Sótt af: https://www.healthdirect.gov.au/self-esteem

Health Psychol. 2015 Jun;34(6):632-41. Do slumped and upright postures affect stress responses? A randomized trial. doi: 10.1037/hea0000146. Epub 2014 Sep 15.

https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/25222091/

Höfundur greinar