Hvernig á að nota sólarvörn á réttan hátt?

Sólarvörn er mjög mikilvægur þáttur í að verja húðina fyrir skaðlegum geislum sólarinnar. Ýmsa þætti þarf að hafa í huga við val á sólarvörn auk þess sem rétt notkun er mikilvæg til þess að tryggja virkni hennar. Með réttri notkun er hægt að verja húðina sem best til þess að þú getir notið sólarinnar og útiverunnar!

Efnisyfirlit

Val á sólarvörn

  • Gott er að velja sólarvörn sem inniheldur breiðvirka formúlu (e.broad spectrum) sem verndar húðina bæði gegn UVA og UVB geislum sólarinnar.
  • Gott er að miða við að sólarverndarstuðullinn (SPF) sé 30 eða hærri.

Góð ráð

  • Velja vatnshelda sólarvörn ef hætta er á svitamyndun eða veru í vatni.
  • Nota sólarvörn sem hentar þinni húðgerð t.d. fyrir viðkvæma húð.
  • Prufa að bera sólarvörnina á lítinn líkamshluta fyrst til að sjá hvernig hún þolist.
  • Velja sólarvörn á því formi sem hentar þér best t.d. froða, sprey eða krem.
  • Hægt er að velja sérstaka sólarvörn sem hentar vel undir eða yfir farða.

Æskilegt magn

Nægilegt magn af sólarvörn á húðina er nauðsynlegt til að tryggja þá þekju sem þarf til að fá góða vörn. Miðað er við að fullorðinn einstaklingur þurfi að minnsta kosti það sem nemur einu skotglasi eða golfkúlu af sólarvörn á líkama sinn. Berðu sólarvörnina á alla óvarða húð.

Góð ráð

Ekki spara magnið sem þú berð á þig til þess að fá fullnægjandi vörn.

Notkun

Berðu á þig sólarvörnina um það bil 20 til 30 mínútum áður en þú ferð í sólina. Þetta gerir sólarvörninni kleift að frásogast inn í húðina og bindast henni. Ef þú berð á þig vörn þegar þú ert kominn út í sólina þá er húðin ekki jafn vel varin og getur brunnið.

Góð ráð

  • Mundu eftir svæðum sem eiga til að gleymast t.d. eyrum og hársverði.
  • Fylgstu sérstaklega með svæðum sem eiga í hættu á að brenna t.d. nef og axlir.

Endurnotkun

Sólarvörn dugar einungis í ákveðinn tíma á húðinni. Því er mjög mikilvægt að bera á sig sólarvörn aftur og miða við að gera það á tveggja klukkustunda fresti yfir daginn. Bera þarf á sig oftar ef þú ert að svitna, synda eða eyða löngum tíma utandyra. Jafn mikið magn af sólarvörn þarf að bera á í hvert skipti.

Góð ráð

  • Vera með lítinn brúsa af sólarvörn í veskinu til að nota yfir daginn.
  • Stilla vekjaraklukku á ákveðinn tíma til þess að muna að bera á sig aftur.
  • Bera aftur á allan líkamann en sérstaklega á þá staði sem eru útsettir fyrir sólbruna.

Augu og varir

Þú ert með viðkvæmt yfirborð á vörum og í kringum augun. Notaðu varasalva sem er að minnsta kosti SPF 15 til þess að verja varirnar þínar. Notaðu sólgleraugu með UV vörn til þess að verja augun.

Góð ráð

  • Vera með varasalva með SPF vörn í veskinu til að vernda og næra varirnar.
  • Vera með sólgleraugu og varasalva á nokkrum stöðum t.d. heima og í bílnum.

Takmarkaðu áhrif sólarinnar

Gott er að takmarka þann tíma sem að sólin fær að skína á húðina. Þó að sólarvörn veiti ákveðna vörn þá er gott að leita í skugga yfir þann tíma dags sem sólin er hæst á lofti.

Það hjálpar einnig að hylja líkama sinn fyrir sólinni. Gott er að íhuga að klæðast hlífðarfatnaði td. vera með stóran hatt eða klæðast langermafötum.

Góð ráð

  • Takmarka tíma í sól og vera í skugga þegar sólin er sem hæst á lofti.
  • Vera með fatnað eða hatt meðferðis ef farið er út í sólina.
  • Sitja í skugga þegar að möguleiki er á því.

Með því að fylgja þessum skrefum þá getur þú borið á þig sólarvörn á öruggan máta og verndað húðina gegn skaðlegum geislum sólarinnar. Með þessu stuðlar þú að eigin heilsu í framtíðinni og getur notið tímans í sólinni betur!

Heimildir

American Academy of Dermatology Association. (e.d.). How to apply sunscreen. Sótt 10.maí 2023 af https://www.aad.org/public/everyday-care/sun-protection/shade-clothing-sunscreen/how-to-apply-sunscreen

Laura Nathan-Garner. (2017). Sunscreen: Tips to wear it well. The university of Texas: MD Anderson Cancer Center. https://www.mdanderson.org/publications/focused-on-health/Sunscreen-Tips-to-wear-it-well.h25Z1591413.html

Cancer council NSW. (2020). 5 steps to applying sunscreen correctly. Sótt 10.maí 2023 af https://www.cancercouncil.com.au/news/5-steps-to-applying-sunscreen-correctly

Höfundur greinar