Verkur í maga.

Góðan dag?

Er með stöðugan verk (seiðing) í maga.Fór í blóðprufu og með þvag.Blóðið kom mjög vel út en ég var með þvagfærasýkingu sem ég finn ekki fyrir.Er búin að taka sýklalyf (Ciprofloxacin Alvogen 250 mg)í fimm daga og en slær ekkert á verkina.Þegar ég borða finn ég meira til en svo er eins og það jafni sig og verkirnir verða eins.Þó ef ég borða ekki nema lítið getur dagurinn verið nokkuð góður?

Bestu kveðjur

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Þú talar um stöðugan seyðing í maga – en það er spurning hvar í maga þú ert að finna til.

Ef þetta er ofarlega í miðju (þar sem maginn sjálfur er staðsettur) þá gæti þetta verið merki um bakflæði/brjóstsviða, magabólgur eða magasár.

Einkenni magabólga er uppþemba, brjóstsviði, meltingatruflanir, kvið- og vindverkir, slappleiki og ógleði.
Einkenni magasárs geta verið meðal annars að þér líður verr þegar þú ert búin að borða, verður fljótt saddur/södd, uppköst og fleiri.
Hér skrifum við um magasár: https://doktor.is/sjukdomur/magasar

Ef verkurinn er neðarlega (í ristli t.d.) gætu það t.d. verið ristilkrampar. Einkenni ristilkrampa eru óþægindi eða verkir í kvið. Sem lagast við hægðalosun eða vindlosun. Ógleði, þaninn kviður, vindgangur, höfuðverkur, breytilegar hægðir, hægðalosun oftar en einu sinni á dag, þreyta, áhyggjur og fleira.

Hér skrifum við um ristilkrampa: https://doktor.is/sjukdomur/ristilkrampar

Eftir að taka inn sýklalyf getur magaflóran raskast. Því er mikilvægt fyrir þig, ef þú ert ekki að því, að taka inn meltingagerla (t.d. acidophilus) samhliða sýklalyfjakúrnum. En mikilvægt er að taka það ekki inn á sama tíma dagsins og sýklalyfin þar sem sýklalyfin drepa meltingagerlana. Gott er að láta sem lengst líða á milli, að minnsta kosti 1-2 klst.

Ég mæli eindregið með að þú farir og leitir til læknisins þíns aftur og látir rannsaka verkinn betur. Jafnvel að fara beint til meltingasérfræðings.

Gangi þér vel,

Sigrún Eva Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur