Magakveisa

Spurningin:

Sæl.
Ég er með eina 10 vikna sem er búin að vera grátandi öll kvöld frá því hún varð 6 vikna. Fram að því var allt í góðu. Það finnst ekkert að henni og talið að þetta sé magakveisa eins og hjá svo mörgun ungabörnum.  En er algengt að börn byrji svona seint að fá magakveisu eða um 6.vikna. Hvenær byrja börn að fá magakveisu og hversu lengi stendur hún yfirleitt yfir. Er einhver leið að finna út hvort að þetta sé örugglega magakveisa en ekki eitthvað annað?

Svar:

Sæl vertu,

Ungabörn eru fyrstu vikurnar að þroska meltingarfærin og starfssemi magans að fara í gang. Þess vegna geta þau fengið svokallaða magakveisu hvenær sem er á þessum vikum. Að sama skapi getur magkveisan lagast fyrirvaralítið og oft er talað um að hún sé minni/betri við 3 mánaða aldur. Þú segir að það finnist ekkert að henni en nefnir ekki hvað var skoðað. Ég mæli alltaf með því að svona lítil börn fari í skoðun til barnalæknis þegar þeim fer allt í einu að líða svona illa til að útiloka að annað geti verið að angra hana eins og þú bendir í raun sjálf á eins og til dæmis eyrnabólga eða þvagfærasýking. Magakveisan er oft greind með þess háttar útilokunum.
Barnalæknir getur þá um leið gefið ykkur betri útskýringar og leiðbeiningar til að komast í gengum þennan erfiða tíma.

Með bestu kveðjum og von um að allt fari að ganga ykkur í haginn,

Guðrún Gyða Hauksdóttir,
Hjúkrunarfræðingur