Skarlatssótt

Efnisyfirlit

Hvað er skarlatssótt?

Skarlatssótt lýsir sér í útbrotum sem myndast í tengslum við hálsbólgu. Þetta orsakast af ákveðinni bakteríutegund s.k. streptókokkum (keðjukokkum). Sjúkdómurinn er algengastur hjá börnum, en getur einnig komið fram hjá fullorðnum. Einkenni sjúkdómsins eru útbrot og rauð tunga, sem minnir einna helst á jarðaber í útliti, þ.e. eldrauð með smáum upphleyptum bólum. Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með sýklalyfjum og er oftast hættulaus.

Hvernig fær maður skarlatssótt?

Meginsmitleiðir. Annað hvort smitast bakterían með snertingu eða með dropum sem koma þá frá nefi eða munni og berast með andrúmsloftinu (úðasmit). Skarlatssóttin kemur fram um leið og hálsbólga sem streptókokkarnir valda. Meðgöngutími (tími frá smiti þar til sjúkdómseinkenni koma fram), er u.þ.b. 2-4 dagar.

Útbrotin geta einnig komið fram vegna sýkingar af völdum bakteríunnar annars staðar í líkamanum, t.d. sýkingar í húð. Þetta gerist vegna þess að sumar tegundir streptókokkanna framleiða efni (toxin), sem valda útbrotum. Mismunandi streptókokkategundir framleiða allar svipuð toxín. Líkaminn myndar mótefni gegn þessum efnum og því fær hinn smitaði aðeins einu sinni á ævinni skarlatssótt. Skarlatssótt er í raun hluti af sjúkdómsmynd streptókokkasýkingar en ekki sjúkdómur í þeim skilningi.

Hver eru einkennin?

  • Hálsbólga með særindum í hálsi þegar kyngt er.
  • Hiti.
  • Útbrotin byrja í andlitinu, en koma sjaldan umhverfis munninn. Útbrotin breiðast síðan um búkinn, handleggi og fætur en hverfa síðan aftur á 3-5 dögum.
  • Tungan verður rauð og líkist jarðaberi; jarðaberjatunga.
  • Húðin getur flagnað eftir 5-7 daga, aðallega á baki, í lófum og á iljum.

Hvað er til ráða?

  • Ef hiti og útbrot koma í kjölfar hálsbólgu, leitið þá til læknis.
  • Hægt er að draga úr særindum í hálsi með heitum eða volgum drykkjum og fljótandi fæði.
  • Drekkið mikinn vökva.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Læknirinn byggir greininguna á sjúkdómseinkennunum og skoðar einnig hálsinn og tunguna.

Batahorfur

Yfirleitt stafar engin hætta af sjúkdómnum og sjúklingurinn nær fullum bata eftir viku. Útbrotin hverfa oft mjög fljótt og fyrr ef sjúklingurinn fær sýklalyf. Ef skarlatssótt kemur í kjölfar hálsbólgu geta sömu fylgikvillar og fylgja almennri hálsbólgu einnig komið fram. Ef skarlatslík útbrot koma í kjölfar annarra bólgusjúkdóma fer þróun sjúkdómsins eftir orsakavaldinum.

Hver er meðferðin?

Streptókokkar eru meðhöndlaðir með penisillíni sem er sýklalyf. Ef penisillínofnæmi er til staðar er erytromycin gefið.

Greinin var uppfærð 14.september 2014

Höfundur greinar