Silfurfrumuæxli

Spurning:

Ég var að reyna að afla mér upplýsinga um carcinoid æxli eða öðru nafni silfurfrumuæxli. Ég var með svoleiðis og langar að fá meiri upplýsingar um þetta æxli og eins hvort þetta er algengt?

Takk.

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina.

Það hefði verið gott að fá upplýsingar um hvar æxlið var staðsett til að geta gefið þér betri upplýsingar en hér koma almennar upplýsingar um sifurfrumuæxli og vona ég að þær verði til einhvers gagns. Algengast er að silfurfrumuæxli eða carcinoid tumorar eigi upptök sín í stórum berkjum í lungunum, en geta einnig myndast í meltingarvegi þar sem algengast er að þau komi frá smáþörmum, botnlanga eða endaþarmi en einnig geta þau myndast í kynkirtlum þótt það sé sjaldgæfara. Þetta eru sjaldgæf æxli sem í mörgum tilfellum hegða sér eins og góðkynja æxli, sérstaklega þau sem eiga upptök sín í þörmum. Meiri líkur eru á að hægt sé að lækna þessi æxli ef þau hafa ekki náð að dreifa sér og gerist það í beinum tengslum við stærð þeirra, þau sem eru minni en 1 cm í þvermál hafa sjaldan náð að dreifa sér en þau sem eru stærri en 2 cm hafa gjarnan dreift sér. Það sem er sameiginlegt og einkennandi fyrir öll þessi æxli er framleiðsla þeirra á hormónum. Algengast er að þau framleiði hormón sem kallast serotonin og hafa þau áhrif að æðar víkka og veldur það sk. Carcinoid Syndrome og eru einkennin eftirfarandi: Skyndilegur roði í andliti Þroti í andliti og kringum augu Hraður púls Lágur blóðþrýstingur Samdráttur í berkjum sem veldur andþyngslum Kviðverkir Niðurgangur Þyngdartap Carcinoid Syndrome er tiltölulega sjaldgæft, því lifrin sér um að fjarlægja þau efni sem æxlið framleiðir. Einkenni geta hinsvegar komið fram ef æxli er í lungum, eistum, eggjastokkum eða lifur, eða eða ef æxli í smáþörmum vex ífarandi í lifur eða æxli hefur náð dreifa sér til lifrar. Til að líkamin geti framleitt serotonin þarf hann aminosýruna tryptophan sem einnig er notuð til að mynda niacin og ákveðin prótein, serotonini er svo umbreytt í líkamanum í efni sem kallast 5-HIAA. Því getur komið fram skortur á próteinum hjá sjúklingum sem hafa carcinoid æxli og serotonin er hækkað ásamt því að 5-HIAA er hækkað í þvagi.

Annað efni sem algengt er að þessi æxli framleiði kallast kallikrein og hefur það áhrif á storkuferli blóðsins, aukin framleiðsla á því veldur því að ótímabær storknun getur sést og því hafa þessir sjúklingar aukna hættu á að fá blóðtappa. Meðferðin felst fyrst oft fremst í því að fjarlægja æxlið með skurðaðgerð og þegar það tekst eru lífslíkur mjög góðar eða 80–90%.

Með von um góðan bata,

kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.