Hásinaslit

Hásinin eins og aðrar sinar í líkamanum er gerð úr sterkum bandvef sem tengir vöðva við bein. Hásinin liggur frá kálfavöðvunum og festist aftan á hælbeinið. Hásinin er sterk sin sem tekur þátt í flestum þeim hreyfingum sem verða um ökklann, t.d. þegar við göngum en getur eins og aðrar sinar í líkamanum slitnað ef tognar of mikið á henni. Við mikið eða langvarandi álag á sinina geta komið bólgur í hana og einnig getur vökvasekkurinn sem liggur milli sinarinnar og hælbeinsins bólgnað upp (bursitis) og valdið verk í sininni.

Helstu orsakir hásinaslits.

Við endurtekið álag á sinina verður hún veikari fyrir átaki og getur því rofnað. Nokkrir þættir sem geta stuðlað á rofi eru:

  • ofnotkun
  • hlaup upp í móti eða á hörðu undirlagi.
  • stuttir kálfavöðvar
  • lélegur skófatnaður
  • aldur
  • teygjur umfram getu

Mikilvægt er fyrir alla að hita vel upp og teygja varlega á sininni áður en virk hreyfing byrjar. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir þá sem eru að byrja eftir langa hvíld frá íþróttaiðkun til að koma í veg fyrir hásinaslit. Þær íþróttagreinar þar sem hlaupið er fram og til baka, s.s. tennis, badminton og körfubolti hafa hvað mesta áhættu á hásinasliti.

Sinin rofnar ýmist alveg og getur sjúklingur þá lítið hreyft fótinn um ökkla eða sinin rofnar að hluta og getur sjúklingur þá hreyft fótinn en finnur verk. Algengast er að sinin rofni u.þ.b. 5 cm fyrir ofan festuna á hælbeininu, en getur rofnað á hvaða stað sem er.

Hver eru einkenni hásinaslits?

Skyndilegur verkur aftan í fæti, oft heyrist brestur og sjúklingur upplifir eins og hafi verið sparkað aftan í fótinn. Ef um fullkomið rof á sininni er að ræða getur sjúklingur lítið hreyft um ökklan og alls ekki lyft sér upp á tær á veika fætinum. Í þeim tilfellum þar sem sinin rofnar að hluta fara einkenni eftir því hversu stór hluti hennar rifnar.

Hvernig greinir læknirinn hásinarslit?

Sjúkrasaga og skoðun gefur miklar upplýsingar. Sjúkrasagan er oft mjög einkennandi, sjúklingur heyrði brest aftan á fætinum og síðan kom sársauki. Sjúklingi finnst helst eins og einhver hafi sparkað aftan á fótinn og eftir það á hann mjög erfitt með að ganga. Við skoðun getur sjúklingur ekki staðið á tám á veika fætinum og oft má þreifa rofið í sininni. Ef um ófullkomið rof er að ræða og sjúkdómsgreining er ekki augljós, er í sumum tilfellum gerð ómskoðun eða segulómun til staðfestingar.

Meðferð

Við áverka er best að byrja á að leggja kaldan bakstur við áverkann til að minnka blæðingar og bólgu, setja fótinn í hálegu og nota þrýsting á áverkastað. Meðferðin er mjög einstaklingsbundin og er háð bæði aldri og hversu mikið sjúklingur er vanur að hreyfa sig. Hjá ungu fólki og þeim sem stunda íþróttir er í sumum tilfellum gerð aðgerð þar sem sinin er saumuð saman og fóturinn svo settur í gifs sem haft er á í 6 vikur. Hjá þeim sem eldri eru og stunda ekki virka hreyfingu er sjaldnar gerð aðgerð, en fóturinn er settur í gifs sem haft er á í 6 vikur og rofið látið gróa. Hvort sem meðferðin felst í aðgerð eða ekki er mikilvægt að byrja sjúkraþjálfun eftir að gifs er tekið og miðar þjálfunin að því að ná upp fullum styrk og hreyfigetu.

Fylgikvillar

Ef meðferð er ekki fullnægjandi getur komið fram lenging í sininni sem getur haft áhrif á spyrnu fótarins t.d. við göngu og hopp.

Greinin var uppfærð 11.maí 2020 af Guðrúnu Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi

Höfundur greinar