Fáðu meira út úr fríinu

Hverju ber að huga að þegar stefnt er að því að koma endurnærð til starfa á ný að loknu fríi?

Rannsóknir sýna að starfsfólk er ekki að koma nægilega úthvílt til starfa að loknu sumarfríi og sumir jafnvel streittari en áður. Mikilvægt er að bæta meðvitund um streituvalda og kröfur. Hugaðu að þeim atriðum sem kunna að koma þér úr jafnvægi, en ekki síður þeim athöfnum sem koma þér í jafnvægi.

Oftar en ekki höfum við lifað í hamstrahjóli lífsins fram að fríi og lítill tími aflögu. Þegar að fríi kemur horfum við í hillingum á uppsafnaðan verkefnalista sem við áætlum að hreinsa upp.
Gott er að kanna hvaðan við fáum hugmyndir okkar um það sem hefur ratað á verkefnalistann.

Streituvaldur 1
Finnst þér þú knúin til að mála húsið að utan vegna þess að þú sást nágrannan bletta í hjá sér?

Streituvörn 1
Minntu þig á að húsið þitt þarf kannski ekki yfirhalningu þrátt fyrir að hús nágrannans þarfnist þess.

Streituvaldur 2
Býður þú í grillpartý þrátt fyrir orkuleysi eftir að hafa séð Gunnu á samfélagsmiðlunum halda heljarinnar grillboð?

Streituvörn 2
Ef þig langar að halda grillpartý en hefur ekki alveg orkuna til þess, skiptu þá upp verkum, allir koma með eitthvað á grillið – þú þarft ekki að standa ein/n í eldhúsinu eins og þú eigir von á páfanum.

Lykilspurningin er, mun þetta næra eða tæra mig?

Temdu þér skynsemi og raunhæfar kröfur sem styðja og efla andlega og líkamlega heilsu þína. Með því að einblína á þessa þætti allt árið um kring en ekki einungis í fríinu, muntu uppskera bættari orku, meiri afköst í leik og starfi, draga úr tíðni veikindafjarvista og auka líkur þess að þú komir endurnærður til starfa að loknu fríi sem og aðra daga ársins.

Höfundur greinar