Eina getnaðarvörnin sem minnkar líkur á bæði þungun og kynsjúkdómum
- Þunnur gúmmípoki sem rúllað er á stinnt typpið fyrir kynmök
- Kemur í veg fyrir að sæði fari í líkama stelpu við kynmök
- Sú getnaðarvörn sem ungt fólk á að nota þegar það er að byrja að stunda kynmök
- Er 98% öruggur ef hann er notaður rétt
- Eina getnaðarvörnin sem minnkar líkur á kynsjúkdómum
- Fæst víða, m.a. í apótekum, matvöruverslunum og bensínstöðvum
- Til með mismunandi lögun, litum og brögðum
- Er alltaf einnota
- Eina getnaðarvörnin fyrir stráka
Leiðbeiningar um notkun smokks
- Heilar umbúðir, ef gat er á umbúðum er smokkurinn ónýtur
- Kanna dagsetningu á umbúðum, útrunninn smokkur er lítil vörn
- Umbúðir opnaðar varlega. Gott að ýta smokknum örlítið til hliðar og rífa umbúðirnar við hornið. Ekki nota tennur eða neglur til að ná smokknum úr umbúðunum þar sem gat gæti komið á hann
- Smokkurinn er upprúllaður þegar hann kemur úr pakkanum. Ef hann lítur út eins og hattur þá snýr hann rétt.
- Smokknum er rúllað upp á stinnt/hart typpið fyrir kynmök, þ.e. áður en hann kemur við ytri kynfæri stelpunnar
- Totan fremst á smokknum tekur við sæðinu. Takið með vísifingri og þumli um totuna og haldið fingrunum þar á meðan smokknum er rúllað upp á typpið. Munið að smokkurinn er þunnur og langar neglur geta auðveldlega gert gat á hann
- Losa loft út með því að strjúka með annarri hendi upp eftir typpi
- Þegar kynmökum er lokið þarf að taka typpi sem fyrst úr leggöngum annars er hætta á að smokkur detti af. Best er að halda við neðri hluta smokksins þegar typpi er dregið út.
- Smokkurinn er tekinn varlega af, bundinn hnútur á hann og honum hent í rusl
- Alltaf á að nota nýjan smokk við hver kynmök
Skoðið einnig hreyfimynd á Kynfræðsluvef Námsgagnastofnunar með því að smella: hér
Spurningar og svör um smokkinn
Hvað er smokkur?
Smokkur er nafn á þunnum gúmmípoka sem rúllað er upp á stinnt typpi fyrir kynmök. Smokkur minnkar líkur á að stelpa verði ólétt þar sem sæðið safnast fyrir í smokknum og fer þar að leiðandi ekki inn í líkama stelpu við fullnægingu. Smokkur er eina getnaðarvörnin sem minnkar líkur á kynsjúkdómasmiti.
Hvers vegna þarf að setja smokkinn á áður en kynmök hefjast?
Helstu ástæðurnar eru að…
- slím rennur úr þvagrás stráks við kynmök og í því getur verið sæði sem er nóg fyrir að gera stelpu ólétta.
- smokkurinn situr betur á þurru typpi en röku. Mun meiri hætta á að smokkur renni af typpi ef því er stungið fyrst í leggöng og smokkur settur á síðar.
- Hlé á kynmökum (til að setja smokk á) hefur truflandi áhrif.
- smokkur er vörn gegn kynsjúkdómum.
Er smokkurinn örugg getnaðarvörn?
Ef smokkurinn er notaður á réttan hátt frá upphafi kynmaka er hann um 98% öruggur. Engin getnaðarvörn er 100% örugg.
Eru til mismunandi tegundir af smokkum?
Já, það eru til mismunandi tegundir en flestir smokkar eru jafnvíðir og eiga að passa öllum strákum. Sumir smokkar eru með hrjúfu yfirborði sem ætlað er að auka ánægju við kynmök. Einnig eru til smokkar með mismunandi litum og brögðum.
Hve lengi geymast smokkar?
Á umbúðunum kemur fram dagsetning sem er síðasti sölumánuður og ár. Ef smokkur er útrunninn ætti að henda honum.
Getur smokkur rifnað?
Já, oftast vegna þess að farið er óvarlega með hann, t.d. þegar hann er tekinn úr umbúðum eða settur á typpi. Aldrei ætti að setja vaselín eða annað á smokk því það eykur líkur á að hann rifni.
Geta allir notað smokk?
Já, allir geta notað smokkinn. Þó verða þeir sem eru með ofnæmi fyrir latexi að nota latexfría smokka sem eru úr plastefni (polyurethane).
Hvað geri ég ef það hefur komið gat á smokkinn?
Ef það hefur komið gat á smokkinn eða hann hefur rifnað þarf stúlkan að taka neyðargetnaðarvörn innan 72 klst.
Þarf að nota smokk við munnmök?
Já. Kynsjúkdómar smitast líka við munnmök og smokkurinn er eina getnaðarvörnin sem ver okkur gegn þeim.
Er smokkurinn vörn gegn kynsjúkdómum?
Já, smokkurinn er eina getnaðarvörnin sem ver einstakling gegn kynsjúkdómum.
Hvar er hægt að kaupa smokka?
Smokkar fást víða, t.d. í matvöruverslunum, apótekjum, bensínstöðvum og á netinu.
Má nota sama smokkinn tvisvar?
Nei, við hver kynmök þarf að nota nýjan smokk. Smokkur er alltaf einnota.
Hvað ef strákur vill ekki nota smokkinn?
Þú átt rétt á öruggu kynlífi. Ef strákurinn virðir það ekki ættir þú að velta fyrir þér hvort þetta sé maðurinn sem þú vilt vera með. Þú ert bæði í hættu á að fá kynsjúkdóm og verða barnshafandi og ef strákurinn virðir það ekki þá er honum nokkuð sama um þig eða er mjög óþroskaður.
Greinin er fengin af vefnum 6h.is og birt með góðfúslegu leyfi.
Höfundur greinar
Helga Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar