Lús

Er lús í hárinu? Allir geta smitast af höfuðlús en smit er algengast hjá 3–11 ára börnum. Höfuðlúsin er ekki talin bera með sér neina sjúkdóma og hún ber ekki vitni um sóðaskap. Smitvaldurinn Höfuðlúsin er 2–3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), grá eða ljósbrún á lit. Hún lifir sníkjulífi í mannshári og sýgur blóð úr hársverðinum. Egg höfuðlúsar kallast nit og „límir“ hún þau á hár nálægt hársverði þar sem þau klekjast út á 6–10 dögum. Þegar lúsin er 9–12 daga gömul hefur hún náð þroska til að geta hafið eigið varp sem getur orðið allt að tíu egg á dag. Lúsin hefur sérhannaðar klær til að komast um í hárinu og getur skriðið 6–30 sentimetra á mínútu en hvorki stokkið né flogið. Lúsin lifir í allt að 30 daga, en ef lýs detta úr hárinu út í umhverfið veslast þær upp og deyja