6 ára barn og Minirin

Spurning:

Getur þú sagt mér hvort að 6 ára gamalt barn megi taka Minirin inn í langan tíma. Þarf ekkert að fylgjast með því, þ.e nýrunum? Ég fékk lyfseðil sem má nota 4 sinnum og 3ja mánaða skammt í einu. Er óhætt að halda áfram að gefa barninu þetta eftir meira en 3 mánuði?

Svar:

Minirin inniheldur efnið desmópressín en það er samtengd (búin til á rannsóknarstofu) hliðstæða náttúrulega hormónsins arginínvasópressíns. Það er munur á tveimur stöðum í byggingunni. Lyfið skilst út úr líkamanum aðallega með þvagi (nýrum). Gæta skal varúðar við notkun lyfsins til meðferðar ungra barna, hjá sjúklingum sem ekki eru í vökva- og/eða saltjafnvægi svo og hjá sjúklingum sem eru í aukinni hættu á að fá hækkaðan þrýsting í heila. Fylgjast á með söltum á hálfs árs fresti. Við langtímameðferð skal gera hlé á lyfjameðferð í um það bil eina viku á þriggja mánaða fresti. Takmarka ber vökvaneyslu í tengslum við notkun lyfsins.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur.