Fyrirspurn:
Er eðilegt að vera 25 ára og vera alltaf þreytt?
Svar:
Þetta er stór spurning sem erfitt er að svara.
Orka til að sinna daglegum störfum okkar er háð svo mörgu í kringum okkur. Sumir þurfa að vinna mikið til að ná endum saman, aðrir eiga lítil börn sem taka mikinn tíma og þrek, enn aðrir eru ekki að hugsa nægjanlega vel um sig – borða óhollan mat og óreglulega, sofa ekki nóg og óreglulega og eru allmennt ekki að lifa heilbrigðu lífi. Þeir sem eru í námi eru oft undir miklu álagi og eins og staðan er í dag eru margir með áhyggjur sem ganga á orkuforðann okkar. Allt þetta veldur því að viðkomandi finnst hann stöðugt þreyttur og illa upplagður. Með því að gefa okkur sjálfum tíma og hugsa vel um andlega og líkamlega heilsu, borða hollt og gott, hreyfa okkur og umgangast þá sem okkur þykir vænt um náum við oftast að hlaða batteríin.
Hins vegar eru vissulega til sjúkdómar og sjúklegt ástand í líkamanum sem veldur stöðugri og óutskýranlegri þreytu. Þetta eru þá sjúkdómar sem hafa áhrif til dæmis á lungu þannig að ekki kemst nægt súrefni út í blóðið (t.d Astmi). Bólgur og þrengsli í nefi og koki eða kæfisvefn sem valda því að viðkomandi sefur illa og eða nær illa að anda að sér súrefni, ýmsir sjúkdómar í hjarta og taugakerfi og eins truflanir í efnaskiptum sem geta valdið því að viðkomandi getur ekki nýtt sér nauðsynleg næringarefni.
Eins og þú sérð þá er um margt að ræða. Ef þú telur þig lifa almennt heilbrigðu lífi, reykir ekki og hreyfir þig reglulega. Ert ekki í vandræðum með svefn eða getur fundir aðra líklega utanaðkomandi skýringu á þreytu þinni þá mæli ég með að þú ræðir við þinn heilsugæslulækni og fáir hans aðstoð við að finna út hvað veldur þreytunni.
Með bestu kveðju
Guðrún Gyða Hauksdóttir
hjúkrunarfræðingur