Spurning:
Ég er 44 ára kona og var að greinast með alltof hátt kólesteról, 9,0 og hef tekið allt mitt mataræðiog hreyfingu í gegn. Er einhver möguleiki þegar maður er svona hár að maður sleppi við að taka blóðfitulækkandi lyf þrátt fyrir góðan ásetning. Með fyrirfram þökk
Svar:
Þegar kólesterólið mælist þetta hátt er æskilegt að mæla einnig hið svokallaða góða kólesteról þ.e. HDL sem er hluti af heildarkólesterólinu. Ef hlutfallið milli góða kólesterólsins, HDL og heildarkólesterólsins er 1/4 er ekki mikil hætta á ferðum. Það er ekki líklegt að þú getir lækkað kólesterólið meira en 10-20% með mataræði, þjálfun og þess háttar. Ég tel því líklegt að þú þurfir einnig á lyfjum að halda en þetta þarf þó að meta með tiliti til annarra áhættuþátta, t.d. reykinga, hækkaðs blóðþrýstings, ættarsögu o.fl. Nánari upplýsingar getur þú fengið í bæklingi Hjartaverndar: Kólesteról. Þekkir þú þitt kólesteról? Er ástæða til að lækka það? Hann er á heimasíðu Hjartaverndar á hjarta.is og fæst einnig ókeypis í afgreiðslu Hjartaverndar, Holtasmára 1, Kópavogi, s: 535 1800 / afgreidsla@hjarta.is Bestu kveðjur, Nikulás Sigfússon, dr.med, fyrrverandi yfirlæknir Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar