Aloe vera heilsudrykkur?

Spurning:
Mig langar svo að vita skoðun sérfræðings á heilsudrykk frá Aloe vera (framleiddur af Forever Living Products – heimasíða www.aloevera.is). Svona er lýsingin á drykknum á heimsíðunni: Aloe Vera Gel drykkurinn er hrásafi unninn úr safa Aloe Vera Barbadensis Miller plöntunnar og er án efa einn fullkomnasti næringardrykkur náttúrunnar, hann inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B – 12 vítamín sem sjaldan finnst í jurtum. Það sem mig langar svo að vita er hvort það er í lagi að gefa tveggja og hálfs árs gömlu barni eina matskeið af þessum safa á dag (fullorðnir eiga að taka 2 til 3 cl). Þá er ég að hugsa um það sem lið í fyrirbyggjandi aðgerðum við t.d. kvefi og öðrum umgangspestum. Mér hefur verið ráðlagt það af manneskju sem neytir safans en ég myndi gjarnan vilja fá ,,hlutlausa" skoðun á því áður en ég tek ákvörðun um hvað ég geri. Annað: ef ég myndi gefa barninu mínu þennan safa mætti ég þá líka gefa því lýsi eða ætti ég að hætta því? Með kærri þökk,

Svar:
Leit að einhverju því efni eða efnum sem lækna alla mannsins kvilla og sjúkdóma hefur líklega staðið yfir í árþúsundir. Af einhverjum orsökum hefur þetta ekki tekist ennþá, en ansi er búið að tilkynna oft um að nú sé búið að finna hinn fullkomna lífselexír. Mér er ljóst að margir hafa mikla trú á eiginleikum aloa vera plöntunni. Samkvæmt heimasíðunni sem þú bendir á, getur safinn úr henni læknað eða komið í veg fyrir margs konar sjúkdóma og kvilla. Ég óttast þó að þarna sé fyrst og fremst um auglýsingaskrum að ræða, án þess að ég vilji fullyrða það. Ljóst er þó að safinn inniheldur hægðalosandi efni sem talið er að geti haft slæm áhrif á meltingarfæri séu þau notuð að staðaldri.Notkun hlaups sem unnið er úr plöntunni útvortis er mikil og virðist það draga úr kláða og sársauka frá húð og hentar því vel til að bera á t.d. sólbruna.Á heimasíðunni er mælt með því að teknir séu inn 60-120 ml á dag (6-12 cl). Ekkert er talað um börn eða skammta handa þeim. Þar sem ég þekki ekki nógu vel til þessarar vöru get ég ekki mælt með því að gefa tveggja og hálfs árs barni hana. Sumir mæla meira að segja eindregið gegn því að gefa börnum aloe vera til inntöku.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur