Ælur hjá ungabörnum

Fyrirspurn:

hæhæ,
Strákurinn minn sem er 6 mánaða hefur ælt mjög mikið frá fæðingu. Hann hefur verið eingöngu á bjósti. Læknarnir segja að þetta sé bara eðlilegt á meðan hann sefur á nóttunni og á meðan hann þyngist svona vel.
Þeir hafa sagt að þetta lagist þegar að hann byrji að borða. en núna er hann búinn að fá grauta og grænmeti í 3 vikur og þetta hefur ekkert skánað. Nema núna seinustu 2 daga hefur hann eingöngu drukkið hjá mér um morguninn og síðan um kl 18.Þess á milli hefur hann fengið graut og grænmeti. Og vatn að drekka. Hann ælir ekkert fyrr en ég gef honum. Getur verið að hann sé með óþol fyrir brjóstamjólkinni og ef svo er hvað er hægt að gera?
Þegar að hann drekkur hjá mér þá eru rosalegir skruðningar í maganum á honum, svo ælir hann og ælir þegar að hann er búinn að drekka. Hann vill helst ekkert liggja á maganum, grætur bara og ælir síðan.

Aldur:
26 ára

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl vertu,

Ælur hjá ungabörnum eru hvimleiðar en ekkert er við þeim gert ef það truflar ekki vöxt og þroska barnsins eins og þú segir. Venjulega er um að ræða að vöðvinn við magaopið milli vélindans og magans er ekki að fullu þroskaður við fæðingu og er alveg fyrsta árið að ná fullum styrk til að geta lokað á eftir fæðunni. Fljótandi fæða lekur þannig frekar upp heldur en föst fæða. Eins er afar algengt að börn gleypi mikið loft þegar þau drekka – miklu frekar heldur en þegar þau borða þykkari mat. Það kemur heim og saman við skruðningana þegar hann drekkur hjá þér. Þú getur reynt að láta hann ropa oftar þegar hann er á brjósti og gá hvort það virkar.
Litlar líkur eru á að hann þoli ekki brjóstamjólkina, þá ætti það líka við um allan mjólkurmat. Ef þú heldur að það sé raunin þá getur þú reynt að sleppa sjálf öllum mat sem inniheldur mjólkurprótein því það fer í brjóstamjólkina og ekki gefa honum neinn mjólkurmat nema brjóstið í eina viku. Ef þú finnur mikinn mun á honum við þetta þá ráðfærir þú þig við lækni varðandi framhaldið.
Vona að þetta komi að gagni.

Bestu kveðjur,
Guðrún Gyða Hauksdóttir
Hjúkrunarfræðingur