Andremma í börnum

Fyrirspurn:

Ég er eiginlega með tvær spurningar. Strákurinn minn 4 ára er svo andfúll, bara virkilega vond lykt útúr honum. Getur það verið eitthvað í hálsinum á honum? Ég bursta hann reglulega, er búin að skoða góminn, spyrja hvort hann finni til en finn ekkert. Ég veit að eitthvað er ekki í lagi, ætti kannski bara að fara með hann til lækins 🙂

Svo er ég með eina tveggja ára, hún pissaði á sig um daginn, er löngu hætt með bleyju, og þegar ég var að skola hana í baðinu var kúla í náranum. Ég býst við að það sé kviðslit en ég hef ekki séð þessa kúlu síðan, hún hjaðnaði fljótt og ég fylgist með henni. Ég ætti kannski bara að fara hópferð til læknis? 🙂

Með fyrirfram þökk.

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Varðandi drenginn: Andremma orsakast yfirleitt annað hvort af lélegum tannstatus ( skemmdar tennur eða illa burstaðar) sem er nú heldur ólíklegt hjá svo ungum pilti eða einkenni frá hálsi  eða vélinda. Hann þarf ekkert endilega að finna til þótt svo sé. Notaðu tækifærið næst þegar þú átt erindi með hann til læknis og ræddu þetta ( t.d. í 4 ára skoðun…?)

Varðandi stúlkuna: Tveggja ára börn eru yfirleitt ekki kominn með fullan taugaþroska til að halda sér þurrum, svo hún er greinilega afar dugleg.  Þó hún missi þvag í eitt og eitt skipti skaltu ekki gera mikið úr því við hana- það skapar bara spennu og getur gert vandamál úr engu. Hins vegar er alltaf ástæða til að vera vakandi fyrir þvagfærasýkingum – sérstaklega hjá stúlkum, þannig að ef þetta gerist aftur – að ég tali nú ekki um að hún fái hita á sama tíma þá skaltu endilega fara með þvagprufu til að útiloka að um sýkingu sé að  ræða.

Ef þú verður vör við kúluna í náranum aftur þá skaltu láta kíkja á hana. Nárakviðslit er afar sjaldgæft hjá stúlkum og oftast meðfætt.

 

Gangi ykkur vel

Guðrún Gyða