Ég hef verið að finna fyrir því að ég þoli ekki birtu. Get ekki haldið augunum opnum, verri í vinstra auga. Get ekki haldið því opnu í sólarljósi og fæ þrýstingsverk.
Hvað ráðleggið þið mér.?
Ég á tíma hjá augnlækni en ekki fyrr en eftir tvo mánuði. Hef ekki náð á hann í síma.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Það er ýmislegt sem getur haft áhrif á augun og sjónina hjá okkur, en það er mikilvægt að taka einkenni frá augum alltaf alvarlega.
Ljósfælni getur verið einkenni ýmissa sjúkdóma en getur einnig verið alveg meinlaus. Ýmsar mögulegar orsakir fyrir ljósfælni geta t.d. verið augnþurrkur, ofnæmi, mígreni, hornhimnubólga eða aðrir hornhimnusjúkdómar, bólgusjúkdómar í augum, áverkar og/eða aðskotahlutir í augum ásamt ýmsu öðru.
Einsog sést eru ýmsar ástæður sem geta valdið þessum einkennum og þvi mikilvægt að fá nákvæma sögu og skoðun. Þar sem að þú ert búin að reyna eftir bestu getu að komast að hjá augnlækni myndi ég ráðleggja þér að hafa samband við þinn heimilislækni, hann ætti að geta framkvæmt fyrstu skoðun og síðar ráðlagt þér hver næstu skref ættu að vera í framhaldinu af því.
Gangi þér sem allra best
Erla Guðlaug, Hjúkrunarfræðingur