Aukaverkanir af Fontex?

Spurning:
Góðan dag, ég er nýbyrjuð að taka inn Fontex 1 töflu á dag og hef fengið slæma fylgikvilla ( ofsakvíðakast og svefntruflanir ) mig langar til að vita hvað þessar aukaverkanir eru yfirleitt lengi að ganga yfir því þetta er vægast sagt ónotaleg tilfinning.Ég fór til heimilislæknisins í þessu kvíðakasti og hann skrifaði upp á kvíðastillandi lyf fyrir mig (byrjar á F ) en sagði að ég mætti ekki taka það inn lengi vegna ávanahættu, helst hefði ég viljað lyf sem verkar aðallega á kvíða því að það er mitt stærsta vandamál, eru þau öll vanabindandi ?

Annað, ég fór út að borða og fékk mér vín með matnum og varð alveg heiftarlega veik strax á eftir, ældi og fékk niðurgang, getur verið að ekki megi neyta áfengis meðan á inntöku þessa lyfs stendur ? Ég er að bíða eftir lyfjaskírteini á lyfið Retuctil til að hjálpa mér að grennast, er hættulegt að taka þessi lyf saman ?

Kær kveðja, ein kvíðin og hrædd við allt…..

Svar:
Aukaverkanirnar sem þú nefnir eru vel þekktar fyrir þetta lyf sem og önnur skyld lyf. Yfirleitt ganga þær þó fljótlega yfir, en erfitt er að segja nákvæmlega hversu langan tíma það tekur. Oftast er þetta þó spurning um nokkra daga til vikur. Ógleði, uppköst, niðurgangur og meltingartruflanir eru meðal algengra aukaverkana Fontex og skyldra lyfja. Líkur eru á því að neysla áfengis auki hættuna á þessu.

Þessar aukaverkanir frá meltingarfærum ganga þó yfirleitt yfir eins og hinar aukaverkanirnar. Vissara er því að fara varlega í neyslu áfengis með þessu lyfi, einkum til að byrja með. Róandi og kvíðastillandi lyf eru yfirleitt talin vanabindandi og því varasamt að nota þau nema mjög skamman tíma í einu. Virka efnið í Reductil, sibutramin hamlar endurupptöku serótóníns (auk annarra áhrifa), en það gerir flúoxetín, sem er virka efnið í Fontex, einnig. Ekki er ráðlegt að nota samtímis fleiri en eitt lyf sem eykur magn serótóníns í heila. Fontex og Reductil ætti því ekki að nota saman nema brýna ástæðu beri til og undir ströngu eftirliti. Þetta atriði verður þú að ræða við lækninn þinn.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur