Spurning:
Góðan daginn.
Hverjar eru aukaverkanir Levonova lykkjunnar?
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Aukaverkanir Levonova lykkjunnar skv. Sérlyfjaskrá:
Aukaverkanir eru algengari fyrstu mánuðina eftir uppsetningu, en hjaðna við langtíma notkun. Eitthvert form blæðingatruflana koma fram hjá um 30%. Sjaldan er greint frá grindarholssýkingum sem getur haft alvarlegar afleiðingar.
Algengar (>1%):
Almennar: Þyngdarbreytingar, verkir í neðri hluta kviðarhols og bakverkir.
Miðtaugakerfi: Höfuðverkur, þunglyndi og aðrar skapbreytingar.
Innkirtlar: Brjóstaverkur og aðrir góðkynja brjóstkvillar, bjúgur.
Meltingarfæri: Ógleði.
Þvag-/kynfæri: Blæðingar (tíðari eða lengri tíðablæðingar, blettablæðingar), tíðateppa, tíðaþrautir, fátíðir, útferð, leggangaþroti, blöðrur á eggjastokkum sem ganga til baka.
Húð: Húðvandamál (t.d. þrymlabólur, útbrot og kláði).
Sjaldgæfar (0,1-1%):
Miðtaugakerfi: Minnkuð kynhvöt.
Innkirtlar: Ofloðna, aukin svitamyndun, hárlos, feitt hár.
Meltingarfæri: Uppþemba.
Mjög sjaldgæfar (<0,1%):
Þvag-/kynfæri: Grindarholssýkingar.
Miðtaugakerfi: Mígreni.
Fjöldi blettablæðingadaga minnkar smám saman að meðaltali úr 9 dögum í 4 daga á fyrstu 6 mánuðunum hjá konum með miklar blæðingar. Hundraðshluti kvenna með lengri blæðingar (fleiri en 8 daga) lækkar úr 20% í 3% á fyrstu 3 mánuðunum. Í klínískum rannsóknum fengu 17% kvenna tíðateppu í minnst 3 mánuði á fyrsta ári notkunar.
Þegar Levonova er notuð samhliða östrógenuppbótarmeðferð, fengu konur fyrir tíðahvörf blettablæðingar og óreglulegar blæðingar á fyrstu mánuðunum. Blæðingar minnkuðu með tímanum og í lok fyrsta árs voru þær óverulegar og 30-60% af notendum höfðu ekki blæðingar.
Þungun sem verður þegar Levonova er til staðar getur verið utanlegs.
Grindarholssjúkdómar geta komið fram hjá þeim sem nota Levonova en tíðnin er lág. Lykkjan eða hluti hennar getur farið í gegnum legvegginn. Stærri eggbú (starfrænar blöðrur á eggjastokkum) geta myndast. Ofnæmisviðbrögð geta verið af völdum lykkjunnar.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur