Bakverkir á meðgöngu

Spurning:

Sæll Arnar.

Mig langaði að forvitnast um bakverki á meðgöngu. Ég hef ekki átt við þetta vandamál að stríða áður en ég varð ófrísk. Ég er nú komin á 26. viku en þetta byrjaði á 23.-24. viku. Ég hef ekki þyngst neitt óskaplega mikið; kannski u.þ.b. 4-5 kg en ég er grönn að eðlisfari. Getur lega barnsins og fylgju eitthvað haft áhrif á þetta? Fylgjan liggur bakatil hægra megin en verkurinn hjá mér liggur þvert yfir mjóhrygginn. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?

Kveðja.

Svar:

Bakverkir á meðgöngu eru yfirleitt ótengdir fósturlegu eða fylgjustaðsetningu nema í undantekningartilfellum. Yfirleitt er þetta það sem kallað er á almennu máli grindarverkir. Ljósmóðirin þín kann allt um þetta, auk þess er talsvert um þetta á netinu. Þú getur og fengið að tala við lækni um þetta. Svo eru til a.m.k. tveir bæklingar um þetta sem þú átt að geta fengið. Oftast versnar þetta ekki mikið á meðgöngu, og batnar oftast á 6 vikum til 4-6 mánuðum eftir fæðingu. Þar fer eftir hver grunnorsökin er. Sjúkraþjálfarar geta gert kraftaverk með ráðum og meðferð.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson, dr. med.