Spurning:
Góðan daginn.
Ég hef talsverðar áhyggjur af meðgöngu minni, en undanfarið hef ég haft viðvarandi blæðingar. Ég er á 14. viku, en blæðingar hófust fyrst í 8. viku. Þá hættu þær, en hófust að nýju í 11. viku. Ekki er um venjulegar tíðablæðingar að ræða, heldur miklu frekar blóðlitað slím. Í fyrstu kom fersk blæðing, en svo var um brúnleita útferð að ræða. Upp á síðkastið hefur mér fundist sem blæðingarnar séu frekar að aukast en hitt, og að þær séu að verða meira rauðlitaðar. Ekki er um að ræða alveg stöðugar blæðingar, en þó nánast daglegar. Undanfarið hef ég þurft að ganga með þunn bindi. Þá hef ég heyrt að hjá sumum konum blæði nánast alla meðgönguna. Ég á erfitt með að átta mig á alvarleika málsins, læknirinn minn hefur sagt mér að taka lífinu með ró og að við verðum bara að sjá til. Er til eitthvað sem heitir eðlilegar blæðingar á meðgöngu, er eitthvað sem ég get gert eða ætti að gera. Allar ráðleggingar væru virkilega vel þegnar. Með kveðju og fyrirfram þökk
Svar:
Sæl.
Takk fyrir fyrispurnina og til hamingju með þungunina. Allar blæðingar á meðgöngu á að taka alvarlegar og virðist mér þú gera það. Þú segist ekki átta þig á alvarleika málsins en blæðing á fyrri hluta meðgöngunnar getur verið af ýmsum toga. Á fyrstu 6-7 vikunum getur blætt aðeins hjá a.m.k. 20% kvenna vegna bólfestu eggs og er sú blæðing ekki alvarleg. Ef hinsvegar verkir eru samfara blæðingu getur það bent til utanlegsfósturs og er það alvarlegt. Blæðing eftir 12 vikna meðgöngu getur stafað af því að legháls er viðkvæmur. Blætt getur eftir samfarir þar sem slímhúðin er mjög viðkvæm á meðgöngu, ef fylgjan er lágsæt eða fyrirsæt. E.t.v. vegna fylgjuloss eða blæðingar frá fylgjukanti. orsakir geta einnig verið óþekktar eða jafnvel merki um hótandi fósturlát.
Allt þetta getur verið orsök blæðinga á meðgöngu og eru misalvarlegar. Magn blæðingar skiptir máli, meira eða minna en matskeið. Hvort sé lykt af blæðingunni og hvernig litur er á blæðingunni, brúnt eða rautt. Einnig ef blæðingu fylgir verkir, samdrættir eða bakverkir. Það er erfitt fyrir mig að ráðleggja þér þar sem mig vantar ýmsar upplýsingar. Þú segir ekki hvaða rannsóknir hafi verið gerðar, hvort þú sért með verki eða önnur óþægindi svo ég geri ráð fyrir að læknirinn þinn hafi gengið úr skugga um að meðgangan gangi eðlilega fyrir sig. Best er að þú pantir tíma hjá ljósmóðurinni sem þú ert hjá og ræðir við hana um áhyggjur þínar og fáir úr því skorið hvað sé á ferðinni hjá þér. Hún getur þá gert í samráði við þig og jafnvel lækni plön um framhaldið. En ég tek undir með lækninum að þú ættir að taka lífinu með ró og varast að ofreyna þig.
Vonandi koma þessi svör þér að gagni.
Bestu kveðjur og gangi þér vel
Halldóra Karlsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir