Blóðþrýstingur

Fyrirspurn:

Ég er með eina spurningu.  Blóðþrýstingurinn hjá mér er mjög mishár,sérstaklega efri mörkin sem flakka frá tæpum 90 upp í 160 sem er þó sjaldgjæft en púlsinn er oftast hér allt upp í 100 en oft 80 – 90.
Hvað getur verið að valda þessu.  Ég hef notað mæli sem hjúkrunnarfræðingur segir í lagi og athugaði svo annan sem ég fékk lánaðan og það eru sömu sviptingarnar?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Blóðþrýstingur er ekki stöðug tala heldur breytist hann eftir því hvað við erum að gera og hvað við borðum og er það hluti af eðlilegri starfssemi líkamans.

Til dæmis hækkar neysla koffíns og nikotín blóðþrýsting og eins ef við höfum ekki drukkið nægan vökva. Að sama skapi getum við haft áhrif til lækkunar á blóðþrýstingi með slökun og rólegheitum.

Blóðþrýstingur er alltaf mældur sem tvö gildi ( efri og neðri mörk) og það skiptir öllu máli að hafa þessar tvær tölur saman þegar verið er að meta þrýstinginn

Oft fylgir púlsinn eftir – hækkar með blóðþrýstingnum en þó er það ekki algilt.

Fáir þú mælingu sem er "eðlileg" þá er að öllum líkindum í lagi með þrýstinginn þó svo hann mælist hár inn á milli.

Ég mæli með því að þú mælir þrýstinginn alltaf við sömu aðstæður, þegar þú ert úthvíld, ekkert stress, ekki búin að fá þér kaffi né sígarettu ef þú notar slíkt.

Fáir þú endurtekið mælingu sem er hærri en 140/90 ( bæði gildin þurfa að vera þar yfir) skaltu ræða það við heimilislækninn þinn.

Bestu kveðjur

 Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur