Breyting á líkamslykt

Mig langar að vita hvort það geti orðið breyting á lykt af mér við inntöku blóðþrýstingslækkandi lyfs? Ég fór til Tælands um jólin og þá varð ég fyrst vör við að lykt af hægðum og morgunþvagi var öðruvisi og taldi að vegna annarskonar mataræðis væri um það að ræða. En nú er rúmur mánuður síðan ég kom heim og ég finn enn þessa lykt. Ég byrjaði á blóðþrýstingslyfi í fyrravor og tek eina töflu að morgni. Finn ekki fyrir neinum líkamlegum einkennum eða breytingum að öðru leyti.

Sæl /ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það eru til margar gerðir blóðþrýstingslyfja svo það er erfitt að svara þér heilt yfir um þessa aukaverkun þar sem ekki kemur fram á hvaða blóðþrýstingslyfi þú ert.

Ég fletti upp tveimur algengum blóðþrýstingslyfjum í sérlyfjaskránni og þessi aukaverkun var ekki gefin upp.

Hérna er slóðin á sérlyfjaskrána ef þú vilt fletta upp lyfinu:  https://www.serlyfjaskra.is/

Breyting á lykt þvags getur haft ýmsar orsakir. Til dæmis getur sæt lykt þýtt að það sé sykur í þvagi og mikilvægt að athuga það mtt sykursýki. Ég ráðlegg þér að heyra í hjúkrunarfræðingi á þinni heilsugæslu og fá að koma með þvagprufu. Það er hægt að stixa þvag með strimli sem greinir ýmsa kvilla. Einnig getur þú rætt við hjúkrunarfræðinginn eða þinn lækni nánar varðandi þessar breytingar, af því þú nefnir bæði þvag og hægðir.

Gangi þér vel, Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur