Breytingaskeið og hormónameðferð?

Spurning:


56 ára – kona

Ég fór í legnám vegna Endometriosis aðeins 41 árs, þá var einnig tekinn annar eggjastokkur og svo árið 1993 sá seinni.  Eftir það notaði ég Evorel plástur þar til fyrir ári síðan, þá hætti ég vegna þess að ég taldi mig ekki þurfa að nota hormónalyf lengur. Fyrst fékk ég þunglyndis/skapvonskuköst og hitasteypur, nú sitja bara hitasteypurnar eftir. þær koma oft á sólarhirng og seinni part nætur vakna ég nær alltaf í svitabaði. Ég svitna mikið, meira en ég gerði áður. Er eitthvað ráð til við þessu?

með kveðju,

Svar:

Sæl og blessuð og þakka þér kærlega fyrir fyrirspurnina.Það er leitt að heyra af veikindum/vanlíðan þinni.  Þessi einkenni sem þú lýsir eru dæmigerð breytingaskeiðseinkenni. 

Meðfylgjandi sendi ég þér grein sem birtist fyrir alllöngu á doktor.is og þú hefur nú e.t.v. lesið.

Síðan ætla ég líka að senda þér link á grein sem birtist í tímariti Íslenskra hjúkrunarfræðinga árið 2002 og er mjög góð samantekt á breytingaskeiði kvenna og hormónameðferð. 

Ég veit ekki hversu vön þú ert að lesa slíkar fræðigreinar en þó þú sért óvön skaltu ekki láta það hræða þig frá því að berjast í gegnum greinina.  Með lestri hennar verður þú líka í mun sterkari stöðu til að fara og hitta kvensjúkdómalækni en það vil ég ráðleggja þér.  Þér líður ekki vel og annaðhvort er að lifa við þetta eða grípa til aðgerða.

Lestu greinina vel, punkaðu hjá þér þær spurningar sem þú vilt spyrja lækninn og drífðu þig í að panta tíma.  (kannski skynsamlegra að panta tíma fyrst, alltaf svo löng bið 🙂

Auðvitað eru til fullt af ráðum án þess að leita til læknis.  Þetta er tímabilið sem vert er að nýta sér til gagns og ánægju. sérstaklega ætti að hugsa vel um sjálfan sig og heilsuna. Það er mikilsvert að átta sig á því að tíðahvörfin eru etv. upphafið á síðasta kafla ævinnar.

Gott er að vera dugleg að stunda líkamsrækt. Það hefur komið í ljós að regluleg hreyfing, til dæmis hressilegir göngutúrar í 20-30 mínútur, 3-4 sinnum í viku, geta bætt heilbrigðum árum við lífið. Hreyfing styrkir beinin, bætir almenna líðan, og það verður auðveldara að sofna vegna eðlilegrar þreytu.

Mataræði er gífurlega þýðingarmikið. Vitað er að neysla grænmetis og ávaxta hefur góð áhrif á heilsuna. Nýjustu rannsóknir frá Bandaríkjunum sýna að með því að borða að minnsta kosti 5 skammta af ávöxtum eða grænmeti á dag, dregur verulega úr líkum á að veikjast.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Þórgunnur Hjaltadóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir