Þunglynd, kvíðin og fælin?

Spurning:
Ég er 37 ára kona og er þunglyndis- og kvíðasjúklingur og fæ oft líka fælnisköst þar sem ég á rosalega erfitt með að vera innan um fólk eða bara að koma mér ut úr húsi. Ég er búin að vera svona lengi eða í u.þ.b. 8 ár og farið tvisvar í hugræna atferlismeðferð, en einhvernveginn get ég ekki haldið við því sem ég hef lært þar og fer alltaf í sama farið. Núna síðast ég fór á Reykjarlund en hef ég ekki getað haldið mér góðri þó að það hafi gengið vel í meðferðinni.
Ég er á miklum lyfjum eða allavega að mínu mati og er reyndar verið að skoða þau núna af læknirnum mínum en ég er búin að fara svo oft langt niður og í langan tíma, að mér finnst allt í kringum mig snúast orðið um það hvernig mér líður. Ég má ekki hitta manneskju úti á götu sem ég þekki án þess að vera spurð (ég veit að þetta er ummhyggja), en ég hef alltaf verið opin með þetta því að ég þoli ekki fordóma.
Staðan hjá mér núna er að ég fer ekki mikið út eða í heimsóknir og forðast að svara símanum nema ég viti hver er að hringja. Þetta er ekki eina áhyggjumálið, ég er gift og á tvö börn. Þessi sjúkdómur minn hefur tekið sinn toll af okkur öllum og mér finnst ég vera að gera út af við manninn minn sem er alltaf svo hugulsamur en hann er orðin svo stressaður yfir minni líðan að það er farið að trufla hann í starfi!
Hvað er til ráða og er eitthvað sem ég get gert eða sagt við fólk sem mér finnst nú orðið vera farið að sniðganga mig sjálfa vegna þunglyndisins? Ég vil endilega láta það fylgja að ég er og hef alltaf verið hress á mannamótum og þannig þekkir fólk mig best en ég er að reyna að vera bara ég sjálf og það virkar bara ekki þannig að ég er farin að setja upp svona grímu og látast vera bara í góðum gír (svona trúður).

kv ein áhyggjufull

Svar:
Sæl.
Það er leitt að heyra að engin meðferð virki þar sem ég heyri að þú ert tilbúin að vinna í meðferð. Ég mæli með að þú reynir samt meira og áherslan verði á að finna út af hverju meðferðin virkar ekki. Stundum er það vegna þess að fólk prófar ekki að fara eftir þeim leiðbeiningum sem það fær eða hreinlega getur það ekki af einhverjum orsökum. Einnig getur meðferðaraðilinn stundum ekki séð hvað það er í raun sem viðheldur vanlíðan og því þarf að skýra það betur. Stundum eru einnig markmiðin sett of hátt eða verkefnin ekki stíluð á það sem viðheldur vanlíðan. Mikilvægt er fyrir þig að gefast ekki upp þar sem þú sættir þig greinilega ekki við stöðuna eins og hún er nú.

Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur