Spurning:
Sæl/Sæll
Ég er á þunglyndislyfinu Cymbalta (Duloxetin) 60mg á dag. Ég hef nokkrar spurningar um það. Læknirinn minn er frekar þurr á manninn þannig ég kann ekki við að spyrja hann. Ég vonast eftir svari frá ykkur. Getið þið sagt mér hvaða þunglyndislyfjaflokki þetta lyf tilheyrir? Þetta er hvorki SSRI-lyf né MAO-hemill. Varla er þetta eitt af þriggja hringja þunglyndislyfjunum, eða hvað? Er til einhvert samheitalyf við Cymbalta? Hver eru þau boðefnakerfi í heila sem Cymbalta hefur áhrif á?
Með kveðju og ósk um svar.
Svar:
Duloxetin er blandaður serótónín (5-HT) og noradrenalín (NA) endurupptökuhemill. Það hefur veik hamlandi áhrif á endurupptöku dópamíns en enga marktæka sækni í histamínvirka, dópamínvirka, kólínvirka og adrenvirka viðtaka. Duloxetin eykur skammtaháð utanfrumustyrk serótóníns og noradrenalíns í mismunandi hlutum heilans. Það er því ekki alveg rétt að segja að það sé ekki SSRI lyf því það er í raun blanda af SSRI og SNRI lyfi. Það er hins vegar alls ekki þríhringlaga geðdeyfðarlyf (TCA). Cymbalta er tiltölulega nýtt lyf og er því ekkert samheitalyf fyrir það á markaði. Boðefnin sem lyfið hefur áhrif á er eins og fram kemur hér að framan þannig serótónín og noradrenalín. Þð dregur úr endurupptöku þessara efna á taugamótum og eykst þannig magn þeirra og þar af leiðandi virkni.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur