Þungun eftir fósturlát

Fyrirspurn:

Eru mjög miklar líkur að maður missi fóstur aftur ef maður verður óléttur strax eftir næstu eðlilegu blæðingar (við fyrsta egglos í eðlilegum tíðahring)?

Ég missti fóstur í ágúst byrjun og blæddi í rúma viku. Svo núna fyrir 2 vikum fór ég aftur á eðlilegar blæðingar og á að vera með egglos núna og við búin að stunda óvarðar samfarir. Er hrædd um ef ég verð ólétt núna svona strax eftir þetta að ég gæti misst fóstrið aftur. Fyrir utan það er ég andlega tilbúin að verða ólétt aftur og get varla beðið 2-3 tíðahringi í viðbót. 

Er þetta mjög óskynsamlegt og líklegt að ég missi það aftur ef ég verð ólétt núna?

Hvað get eg gert til að auka líkurnar á að eggið frjóvgist eftir samfarið ef ég er með egglos og hvað get ég gert til að minnka líkurnar á að missa fóstrið aftur ef ég verð ólétt?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Almennt mæla læknar með því að að bíða nokkra tíðahringi eftir fósturlát til að líkaminn nái að jafna sig og einnig að konan nái að jafna sig andlega. 

Ég veit ekki til að það séu auknar líkur á fósturláti ef þú verður þunguð strax aftur. Það eru mörg dæmi um að konur verði strax ófrískar aftur og gengið vel.

Það er um að gera að vera líka þolinmóð – ekki er víst að þó þú hafir egglos að það verði þungun, sérstaklega ef líkaminn er ekki alveg búinn að jafna sig.  Það tekur oft tíma að verð ófrísk og talað um að það sé eðlilegt að það taki um 6 mánuði þó parið stundi óvarðar samfarir í kringum egglos.

Ef þú verður ólétt strax þá er um að gera að fara vel með sig en annars að gera það sem þú ert vön að gera – lítið sem þú getur beint gert nema hugsa vel um þig – hvílast, borða fjölbreytt og þess háttar hluti.

Gangi þér vel!

Kristín Svala Jónsdóttir,

hjúkrunarfræðingur og Ljósmóðir.